Manchester City vann 2-1 útisigur á Aston Villa er liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Heimamenn voru nálægt því að jafna metin undir lok leiks.
Fyrri hálfleikur leiksins á Villa Park í kvöld benti til lítils annars en öruggs sigurs gestanna frá Manchester-borg.
Portúgalski miðvörðurinn Rúben Dias kom Man City yfir eftir sendingu Raheem Sterling á 27. mínútu og skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks bætti Bernardo Silva við öðru marka gestanna.
Þessi skyndisókn hjá City og afgreiðslan hjá Bernardo Silva
— Gummi Ben (@GummiBen) December 1, 2021
Staðan 0-2 í hálfleik og virtist sem gestirnir færu með þægilegan sigur af hólmi. Lærisveinar Steven Gerrard voru ekki alveg á sama máli og minnkaði Ollie Watkins muninn strax í upphafi síðari hálfleiks.
Þó heimamenn hafi ekki vaðið í færum þurftu gestirnir samt að treysta á hinn magnaða Ederson undir lok leiks en hann varði meistaralega frá Carney Chukwuemeka þegar stundarfjórðungur var til leiksloka.
Fór það svo að City vann 2-1 sigur og er því aðeins stigi á eftir toppliði Chelsea sem trónir á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með 33 stig að loknum 14 umferðum.