Innlent

Kapellan þyrfti að víkja fyrir Co­vid-sjúk­lingum

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Runólfur segir að ný Co­vid-eining á spítalanum myndi hjálpa en þó ekki um­bylta getu spítalans í far­aldrinum.
Runólfur segir að ný Co­vid-eining á spítalanum myndi hjálpa en þó ekki um­bylta getu spítalans í far­aldrinum. vísir/stöð2

Ekkert bólar enn á nýrri deild innan Land­spítala sem átti að koma í stað fyrir Co­vid-göngu­deildina. Um þrír mánuðir eru síðan spítalinn sendi heil­brigðis­ráðu­neytinu drög að út­færslu rýmisins þar sem er meðal annars lagt til að kapella spítalans verði nýtt undir Co­vid-sjúk­linga.

Heil­brigðis­ráð­herra greindi fyrst frá vilja sínum til að koma á fót sér­stakri Co­vid-einingu innan Land­spítalans í byrjun ágúst.

Verk­efnið er í raun að­eins flutningur á Co­vid-göngu­deildinni, úr hús­næði sem er stað­sett fyrir utan Land­spítalann í Foss­vogi og inn í aðal­bygginguna.

Myndi leysa vandamál og skapa legurými

Hin göngu­deildin hefur reynst spítalanum á­gæt­lega en var þó hugsuð sem bráða­birgða­lausn.

„Vandinn er hins vegar sá að það er bág­borin vinnu­að­staða fyrir starfs­fólk, það skortir salerni og það sem meira er að ef að mynd­greiningar er þörf eins og oft er þegar um veika ein­stak­linga er að ræða þá þarf að flytja þá hingað í aðal­bygginguna,“ Runólfur Páls­son, fram­kvæmda­stjóri með­ferða­sviðs Land­spítala, í kvöld­fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

„Þannig þetta myndi leysa ýmis mál og það myndu líka skapast á­kveðin legu­rými með þessum hætti.“

En hefur ekkert gerst í þessu verk­efni frá því að heil­brigðis­ráð­herra minntist á það fyrir kosningar?

„Nei, í rauninni ekki. Fram­kvæmda­stjórn spítalans lagði fram á­kveðna lausn miðað við þá að­stöðu sem við höfum hérna í Foss­vogi og setti það fram í formi minnis­blaðs til heil­brigðis­ráðu­neytisins og ég held að málið sé til skoðunar þar,“ segir Runólfur.

Hefði getað verið tilbúið í byrjun næsta árs

Um­rætt minnis­blað var sent um miðjan ágúst en þar er gert ráð fyrir að fram­kvæmdirnar taki um 5 til 7 mánuði og kostaði 540 milljónir.

Hefði verið ráðist í þær fljótt ætti deildin því að vera orðin til­búin til notkunar á fyrstu þremur mánuðum næsta árs en nú er ljóst að ef verður af verk­efninu muni fram­kvæmdunum ekki ljúka fyrr en um mitt næsta ár eða síðar.

Í til­lögu spítalans er meðal annars lagt til að því rými sem nú húsir sjúkra­þjálfun, skrif­stofu prests og kapellu verði breytt og nýtt undir Co­vid-sjúk­linga. Þetta er talinn hentugasta staðsetning fyrir deildina því hægt yrði að ganga beint inn í nokkur rýmanna, sem eru með sérinngang, og sleppa þannig við umgang smitaða einstaklinga í gegn um sameiginleg rými spítalans.

Með deildinni myndu allt að sjö ný legu­rými bætast við spítalann en til saman­burðar liggja 25 með Co­vid-19 þar inni í dag.

Verk­efnið myndi því auka getu spítalans til að sinna far­aldrinum nokkuð.


Tengdar fréttir

„Það er allt að springa hérna“

Deildarstjóri Covid-göngudeildar óttast að Landspítalinn hætti að ráða við álagið með áframhaldandi fjölgun smitaðra í samfélaginu og telur að grípa þurfi til hertari aðgerða svo staðan verði ekki eins slæm og víða annars staðar í Evrópu. Metfjöldi greindist með kórónuveiruna innanlands í gær.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.