Innlent

Talinn hafa flogið inn Bark­ár­dalinn án nægi­legrar að­gæslu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Wagstaff systkinin með föðurömmu sinni. Systkinin fá nokkrar milljónir í bætur vegna andláts föðurs þeirra.
Wagstaff systkinin með föðurömmu sinni. Systkinin fá nokkrar milljónir í bætur vegna andláts föðurs þeirra.

Héraðsdómur Reykjavíkur metur það svo að Arngrímur Jóhannsson flugstjóri hafi ekki sýnt nægilega aðgæslu vegna yfirvofandi hættu á blöndungsísingu, er hann hagaði flugi inn Barkárdal á Tröllaskaga í ágúst 2015, með þeim afleiðingum að kanadíski flugmaðurinn Arthur Grant Wagstaff fórst. 

Er þetta meðal annars grundvöllur þess að Arngrímur og tryggingafélagið Sjóvá voru dæmd til að greiða ekkju Wagstaffs þrjár milljónir króna í bætur. Áður hefur verið sagt frá niðurstöðu málsins en dómur í máli ekkju kanadíska flugmannsins gegn Arngrími og Sjóvá var birtur á vef Héraðsdóms Reykjavíkur í dag.

Dætrum og syni Wagstaff og ekkju hans, Roslyn Mary Wagstaff, þeim Sarah Louise, Claire Noelle Wagstaff og Tyler Grant voru dæmdar tvær milljónir króna í bætur.

Dómur héraðsdóms í máli ekkjunnar er yfirgripsmikill og var dómurinn meðal annars skipaður flugmanni.

Ferja átti vélina til Keflavíkurflugvallar

Málið má rekja til þess að þann 9. ágúst 2015 stóð til að Arngrímur og Arthur Grant Wagstaff legðu upp í langferð frá Íslandi með nokkrum stoppum. Ferðinni var á endanum heitið til Minneapolis í Bandaríkjunum þar sem þeir hugðust selja sjálfa vélina sem bar þá á áfangastað.

Vélin var lítil flutningavél af gerðinni De Havilland DHC-2 Beaver en þær hafa verið framleiddar í Kanada við góðan orðstýr frá 1947. Fjallað var ítarlega um málið í Fréttablaðinu á sínum tíma.

Þennan dag stóð bara til að fljúga vélinni til Keflavíkurflugvallar. Vélin brotlenti í Barkárdal og komst Rannsóknarnefnd samgönguslysa að þeirri niðurstöðu að vélin hefði verið ofhlaðin og slæm skilyrði til sjónflugs.

Arngrímur, sem flaug vélinni, komst við illan leik út úr brennandi flaki vélarinnar. Wagstaff lést. Fjölskyldan höfðaði mál á hendur Arngrími Jóhannssyni flugmanni og tryggingafyrirtækinu Sjóvá. Arngrímur er einn reynslumesti og þekktasti flugmaður landsins.

Ekki of þung og ekki ófært til sjónflugs

Ekkja Wagstaff hélt því fram að Arngrímur hefði sýnt af sér stórfellt gáleysi í aðdraganda flugsins á margan hátt og eru ástæður hennar tíundaðir á eftirfarandi hátt í dómi héraðsdóms

Meðal annars á þeirri forsendu að flugvélin hafi verið of þung vegna of mikils eldsneytis þar sem aukatankur sem var í vélinni hafi verið fylltur af eldsneyti. Þyngdar- og jafnvægisútreikningar hafi verið rangir og ófært hafi verið til sjónflugs þennan dag samkvæmt spá Veðurstofu Íslands en stefndi flogið af stað þrátt fyrir það. Þá hafi flugvélin verið komin svo innarlega í Barkárdalnum að vélin hefði ekki haft nægt afl miðað við þá ofþyngd sem hafi verið í henni til þess að snúa við inn í dalnum. Þá hefði stefndi í raun aldrei átt að fljúga inn svona þröngan dal þar sem veðurskilyrði vegna mikils loftraka og lágs hitastigs hefðu skapað dæmigerð skilyrði fyrir blöndungsísingu ef henni hafi verið til að dreifa sem orsök slyssins

Í niðurstöðu héraðsdóms er ítrekað vísað í skýrslu dómskvaddra matsmanna sem lögð var til grundvallar niðurstöðu í málinu.

Hafnar héraðsdómur því að vélin hafi verið of þung fyrir flugtak en matsmennirnir töldu að hún hefði verið lítillega of þung, eða 23 kílóum. Er því slegið föstu að flugvélin hafi verið komin undir hámarksþyngd í flugtaki vegna eldsneytisnotkunar á flugvellinum og töluvert undir hámarksþyngdina er hún brotlendi um 45 mínútum síðar.

Þá tekur héraðsdómur fram að ekkja flugmannsins hafi ekki leitt tvo menn fyrir dóm sem varpað hefðu getað ljósi á flugtaksþyngdina. Voru það sjónarvottur sem ræddi við Wagstaff þegar hann var að dæla eldsneyti á flugvélina og flugvirki sem kom fyrir aukaeldsneytistanki um borð í vélina. Telur dómurinn að ekki mega rekja orsakir slyssins til þessara atriða.

Héraðsdómur tekur einnig fyrir veðrið umræddan dag og kemst að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið ófært til sjónflugs umræddan dag. Byggði þessi niðurstaða meðal annars á myndum úr vefmyndavélum Vegagerðarinnar, og því að flogið var leitarflug yfir Öxnadalsheiði, Hörgárdalsheiði og Barkárdal síðdegis þennan dag án nokkurra vandkvæða. Telur dómurinn því að skyggni hafi ekki haft áhrif á slysið og ósannað að Arngrímur hafi sýnt af sér gáleysi hvað þetta varðar.

Aðstæður til myndunar blöndungsísingar taldar einkar óheppilegar

 Því næst snýr héraðsdómur sér að spurningunni um hvort að hreyfill flugvélarinnar hafi misst afl vegna blöndungsísingar og hvort Arngrímur bæri á því skaðabótaskylda ábyrgð.

Í dóminum segir að fyrir liggji ótvírætt að aðstæður til myndunar blöndungsísingar voru einkar óheppilegar 9. ágúst 2015. Er þar útskýrt að notaður sé svokallaður blöndungshitari til þess að koma í veg fyrir að blöndungsísing myndist. Í umræddri flugvél var hægt að kveikja og slökkva á blöndungshitaranum innan úr vélinni.

Barkárdalur er á Tröllaskaga, ekki langt frá Akureyri.

Er vitnað í skýrslu Arngríms fyrir dómi þar sem skilja mátti á honum að blöndungsísmyndun væri slíkt grundvallaratriði að það væri ætíð haft í huga í flugi. Vegna hættu á slíkri myndun hafi hann einmitt hætt við að fljúga yfir inn í Öxnadal og Hörgárdal. Sagðist hann hafa kveikt á blöndungshitaranum af og til.

Sagði Arngrímur að hann hefði ákveðið að fljúga inn Barkárdalinn þar sem svo virtist að þar væri léttara yfir.

Í dómi héraðsdóms segir eftirfarandi um að þá ákvörðun að fljúga inn Barkárdalinn.

Þegar á hinn bóginn er horft til þess að stefndi hafði áður í tvígang þurft frá að hverfa, í Öxnadal og í Hörgárdal, sýnist það hafa verið í það minnsta umdeilanleg ákvörðun að hefja för inn Barkárdalinn. Alltént hefði þurft að gæta ýtrustu árvekni við slíkt flug þar sem stefnda voru ísingaraðstæður fullljósar enda hafði hann snúið við af þeim sökum í tvígang eftir því sem hann greindi frá fyrir dómi. Af framburði stefnda fyrir dómi verður enn fremur ekki séð að stefndi hafi metið hættuna á blöndungsísingu eftir réttum og viðurkenndum aðferðum, þar sem hann skilgreindi áhættuna í framburði sínum út frá sýnilegri úrkomumóðu. Raunin er hins vegar sú að það eru hitastig og daggarmörk sem miklu meira máli skipta þegar varast þarf ísingu af þessu tagi en úrkoma.

Í dómi héraðsdóms segir að ekki liggi fyrir haldbærar upplýsingar um hvað nákvæmlega hafi gerst á síðustu mínútum flugsins:

Af framburði stefnda [Arngríms, innsk. blaðmanns] fyrir dómi mátti ráða að hann hefði verið búinn að halla flugvélinni í vinstri beygju í suður, til að fara þvert yfir dalinn og snúa við, þegar hann varð þess var að svo nærri jörðu var komið að nauðlending væri óhjákvæmileg. Hann hefði þá rétt vélina af úr beygjunni til að lenda henni flatri. Hvernig það gerðist að flugvélin var komin svona neðarlega liggja engin gögn eða frásögn fyrir um.

Í dómi héraðsdóms segir að svo virðist sem að Arngrímur hafi í raun ekki brugðist við fyrr en hreyfillinn var að missa afl. Tilraunir til að bregðast við blöndungsísingu hafi því hafist of seint þar sem svo mikil ísing hafi verið búin að hlaðast upp að of langan tíma hafi tekið að bræða hana miðað við það svigrúm sem Arngrímur hafði í þröngum afdal.

Þá kemur einnig fram að Arngrímur virðist hafa tekið ranga ákvörðun þegar hann hélt flugi áfram inn dalinn í stað þess að snúa strax við er hann varð var við aflmissi hreyfilsins.

Sýndi ekki nægja aðgæslu

Niðurstaða héraðsdóms var því sú að meta þyrfti það Arngrími til gáleysis að haga flugi inn Barkárdalinn án nægrar aðgæslu varðandi yfirvofandi hættu á blöndungsísingu er hann fylgdist ekki með blöndungshitamæli flugvélarinnar. Þá telur héraðsdómur að hann hafi síðan ekki brugðist rétt við er flugvélin varð fyrir gangtruflunum með því að snúa vélinni ekki við án tafar. Í stað þess hafi hann flogið mót hækkandi landi, í átt að háu fjallaskarði sem hann hafði þegar tekið ákvörðun um að fljúga ekki yfir. 

Vísaði héraðsdómur einnig til dómafordæmis í banaslysum í samgöngum til þess að leggja til grundvallar að Arngrímur hefði sýnt af sér stórfellt gáleysi. Féllst Héraðsdómur Reykjavíkur því á að Arngrími bæri að greiða ekkjunni bætur.

Ekki aðstoðarflugmaður þó hann hafi aðstoðað

Sem fyrr segir stefndi ekkja Wagstaff einnig tryggingafélaginu Sjóvá vegna málsins, en félagið hafði neitað að greiða henni bætur þar sem það taldi Wagstaff hafa verið einhvers konar aðstoðarflugmaður í fluginu.

Í dómi héraðsdóms er lítið gefið fyrir þessa ástæðu tryggingafélagsins og henni hafnað á þeim grundvelli að óumdeilt væri að Arngrímur hafi verið flugstjóri í flugferðinni og bæri ábyrgð á henni. Um þetta segir eftirfarandi í dómi héraðsdóms:

Það að tveir þrautreyndir flugmenn ræði saman um framkvæmd flugs í aðdraganda þess og á meðan á fluginu stendur gerir þann sem er ekki við stjórnvölin ekki að flugmanni í viðkomandi flugferð. Það að hann leysi einhver tiltekin verkefni af hendi fyrir flugið eða á meðan á því stendur gerir hann ekki heldur að flugmanni.

Tugmilljóna kröfu ekkjunnar vísað frá

Sem fyrr segir var ekkjunni dæmdar rúmar þrár milljónir króna í bætur, en raunar gerði hún kröfu um greiðslu 36 milljóna króna í bætur vegna missis framfærenda. Þessari kröfu var hins vegar vísað frá þar sem hún var vanreifuð.

Segir meðal annars að ekkert liggi fyrir um fjárhæð launa Wagstaff á árunum 2012, 2013 og 2014. Vísbendingar voru einnig um að ekki hafi verið gerður greinarmunur á kanadískum og bandarískum dollurum í viðleitni stefnanda til að finna út árslaun hans.

Þá krafðist ekkjan tíu milljóna í skaðabætur vegna málsins og taldi héraðsdómur rétt að dæma henni tvær milljónir í skaðabætur, auk þess sem að Arngrímur og Sjóvá þurfa að greiða rúma milljón vegna útfararkostnaðar, samtals 3 milljónir króna.

Ítarlegan dóm héraðsdóms má lesa hér.


Tengdar fréttir

Fjölskylda Wagstaff fær níu milljónir vegna flugslyssins

Ekkju og þremur börnum kanadíska flugmannsins Arthur Grant Wagstaff sem fórst í flugslysi í Barkárdal í ágúst 2015 hafa verið dæmdar samanlagt um níu milljónir króna í bætur. Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×