Körfubolti

„Erfitt að spila á móti gömlum liðsfélögum“

Atli Arason skrifar
Kamilla Sól (t.h.) í leik með Njarðvík en hún lék áður með Keflavík.
Kamilla Sól (t.h.) í leik með Njarðvík en hún lék áður með Keflavík. Vísir/Bára Dröfn

Kamilla Sól Viktorsdóttir, leikmaður Njarðvíkur, var ánægð með 77-70 sigur Njarðvíkur á Keflavík, sem var samt sem áður sérstakur fyrir hana. Kamilla Sól er uppalin í Keflavík og lék 6 leiki með liðinu á síðasta tímabili áður en hún skipti yfir til Njarðvíkur.

„Þetta var sætur sigur en það var erfitt að spila á móti gömlum liðsfélögum og vinkonum mínum, það var smá áhugavert en sætur sigur,“ sagði Kamilla í viðtali við Vísi eftir leik.

„Mér fannst það smá skrítið, sérstaklega því ég þekki þær svo vel en kannski er það bara betra að þekkja þær svona vel en þá veit maður hvernig á að dekka þær og þekkir inn á styrkleika þeirra og veikleika.“

Njarðvíkingar voru vel undirbúnar fyrir leikinn í kvöld gegn Keflavík en það var ekkert sem kom Kamillu á óvart í leik andstæðingana.

„Nei í rauninni ekki. Við vissum nákvæmlega hver þeirra styrkleiki er, þær vilja leita að Dani [Wallen] undir körfunni og Anna Ingunn er mjög góð skyta sem leitar að skotinu. Við vildum helst stoppa það og það gekk svona vel,“ svaraði Kamilla, aðspurð af því hvort eitthvað hafi komið Njarðvíkingum á óvart í leikskipulagi Keflavíkur í kvöld.

Kamilla var ekki í nokkrum vafa að öflugur varnarleikur hjá Njarðvík hafi verið það sem skilaði þeim sigri í kvöld.

„Vörnin. Þær eru að meðaltali í 85 stigum í leik en við héldum þeim í 70 stigum þrátt fyrir að nokkrar körfur komu í lokin sem við hefðum átt að koma í veg fyrir. Vörnin okkar var frábær í dag og það er það sem vann leikinn,“ sagði Kamilla Sól Viktorsdóttir, leikmaður Njarðvíkur, að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×