Innlent

Bjarni Guð­ráðs­son í Nesi í Reyk­holts­dal er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Bjarni Guðráðsson hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf hans að kirkjutónlist og varðveislu menningarminja árið 2000.
Bjarni Guðráðsson hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf hans að kirkjutónlist og varðveislu menningarminja árið 2000. Ísmús

Bjarni Guðráðsson, bóndi í Nesi í Reykholtsdal og organisti, er látinn 86 ára að aldri eftir stutt veikindi.

Frá þessu segir í frétt Skessuhorns. Bjarni fæddist á Skáney árið 1935 og lauk landsprófi frá Héraðsskólanum í Reykholti árið 1951. Hann átti síðar eftir að stunda tónlistarnám og varð organisti og söngstjóri í Reykholtskirkju um áratugaskeið. Hann stýrði auk þess fjölda kóra samhliða því að reka mikið kúabú í Nesi.

Bjarni í Nesi lét sig málefni sveitarinnar varða og átti meðal annars sæti í hreppsnefnd Reykholtsdalshrepps, var lengi í forystu Búnaðarsambands Borgarfjarðar. Eftir að skólahaldi lauk í Reykholti veitti Bjarni byggingarnefnd nýrrar Reykholtskirkju og Snorrastofu forstöðu.

„Helgaði hann krafta sína því verkefni um árabil og lagði allt undir. Veðsetti jafnvel jörð sína til lántöku þegar bið var á framkvæmdafé eftir öðrum leiðum. Þetta gamla höfuðból, héraðsbúar og raunar landsmenn allir eiga því þeim félögum Bjarna í Nesi og sóknarprestinum sr. Geir Waage mikið að þakka. Saman voru þeir í forsvari fyrir verkefni sem var svo miklum mun stærra en lítill söfnuður einn og sér hefði getað staðið undir,“ segir í grein Skessuhorns.

Bjarni hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf hans að kirkjutónlist og varðveislu menningarminja árið 2000.

Eiginkona Bjarna var Sigrún Einarsdóttir en hún lést árið 2017. Saman áttu þau fjögur börn og ættleiddu það fimmta.

Útför Bjarna verður gerð frá Reykholtskirkju þann 6. nóvember klukkan 11.

Að neðan má sjá viðtal Bjarka Sveinbjörnssonar við Bjarna. Viðtalið birtist á vef Ísmús.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×