Handbolti

Gunnar Magnússon: Það munar rosalega þegar við fáum miklu fleiri bolta varða

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, var sáttur með stigin tvö í kvöld.
Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, var sáttur með stigin tvö í kvöld. Vísir/Vilhelm

Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar var að vonum sáttur með frammistöðu sinna manna er þeir sigruðu Víking í Olís-deild karla í handbolta í dag. Afturelding var með yfirhöndina allan leikinn og sigraði sannfærandi 28-19. 

„Mér líður mjög vel. Þetta var frábær leikur hjá okkur. Vörnin var frábær og núna fáum við frábæra markvörslu líka. Það munar rosalega þegar við fáum miklu fleiri bolta varða, auðvitað spilar þetta saman. Vörnin var góð og Binni var frábær fyrir aftan og þá er lífið oft auðveldara, þegar þetta gerist.“

Í síðustu tveimur leikjum hefur Afturelding mætt botnliðum Olís-deildarinnar og átti í vandræðum með þau. Aðspurður hvað hefðir breyst fyrir þennan leik sagði Gunnar þetta:

„Í síðustu tveimur leikjum höfum við verið að fá of mikið af mörkum á okkur. Í dag held ég að við séum með fleiri bolta varða en í síðustu tveimur leikjum. Að sama skapi er vörnin betri og það var það sem við löguðum núna, vörn og markvarsla. Svo fækkuðum við tæknifeilunum mikið sóknarlega en hann var sjóðandi hinumegin í markinu. Þegar grunnurinn er góður og vörn og markvarsla í lagi þá höfum við buffer í að gera þessi mistök.“

Næst á dagskrá er smá hlé á Olís-deild karla og ætlar Gunnar að nýta hana vel. 

„Nú ætlum við aðeins að hvíla okkur yfir helgina. Svo þurfum við bara að halda áfram, eins og ég segi þetta var góð frammistaða núna en við eigum ennþá mikið inni. Við þurfum að halda áfram að vinna vel og mæta sterkir eftir pásu. Rosalega margir mikilvægir leikir framundan og nóvember verður spennandi. Október var góður, mörg stig en nóvember verður strembinn og skemmtilegur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×