Umfjöllun og viðtöl: Afturelding - Víkingur 28-19 | Afturelding lék sér að nýliðunum

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Guðmundur Bragi Ástþórsson skoraði fjögur mörk fyrir Aftureldingu gegn Víkingi.
Guðmundur Bragi Ástþórsson skoraði fjögur mörk fyrir Aftureldingu gegn Víkingi. Vísir/Daníel Þór

Afturelding sigraði nýliða Víkings sannfærandi í 6. umferð Olís-deildar karla í kvöld. Lokatölur 28-19. 

Afturelding tók forystuna strax á upphafs mínútum leiksins og tók það Víkinga um fimm mínútur að skora fyrsta markið. Sóknarleikur Víkings á fyrstu mínútunum var farinn að minna á Groundhog day. Boltanum þvingað á línuna þar sem leikmenn Aftureldingar stálu honum og keyrðu upp í hraðaupphlaup.

Sóknarleikur Víking var alls ekki sannfærandi fyrstu 20 mínúturnar og hefði það ekki verið fyrir Jovan Kukobat sem var með 40% markvörslu í fyrri hálfleik hefði staðan mögulega verið töluvert verri. Þegar 20 mínútur voru liðnar var staðan 8-3.

Það lifnaði yfir Víkingum síðustu 10 mínúturnar þar sem sóknarleikur þeirra varð agaðri og minna um að þvinga boltanum á línuna. Staðan þegar liðin gengu til klefa var 12-8.

Víkingar voru töluvert ákveðnari á fyrstu mínútum seinni hálfleiks heldur en í þeim fyrri. Þegar um fimm mínútur voru liðnar af seinni hálfleik var staðan 13-11. Það entist hinsvegar ekki lengi og voru leikmenn Aftureldingar fljótir að koma sér aftur í kjörstöðu. 

Þegar um stundarfjórðungur var liðin af seinni hálfleik var staðan 19-13. Víkingar voru með engin svör upp í erminni og sigraði Afturelding með 9 mörkum, 28-19. 

Af hverju vann Afturelding?

Varnarleikurinn sem og markvarslan hrökk í gang hjá þeim í dag. Þrátt fyrir að Jovan hafi staðið sig vel í marki Víkinga náðu þeir að skora 28 mörk. Þeir tóku forystu strax á fyrstu mínútu leiksins og litu aldrei um öxl. 

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá Aftureldingu var það Árni Bragi Eyjólfsson sem var atkvæðamestur með 8 mörk. 

Brynjar Vignir Sigurjónsson var góður í markinu með 12 bolta varða, 39% markvörslu. 

Hjá Víkingum voru það Jóhannes Berg Andrason og Andri Dagur Ófeigsson atkvæðamestir með 4 mörk hvor. 

Jovan Kukobat var öflugur í marki Víkinga með 15 bolta varða, 35% markvörslu. 

Hvað gekk illa?

Víkingar skora ekki fyrstu fimm mínútur leiksins. Sóknarleikurinn hjá þeim minnti óþarflega mikið á Groundhog day þar sem þeir tóku sömu taktík í sókn þrisvar sinnum sem endaði öll eins, Afturelding stal boltanum og keyrði í hraðaupphlaup. Einnig er erfitt að vinna leik þegar liðið er með 20 tapaða bolta. 

Hvað gerist næst?

Nú er smá pása í Olís-deildinni og fer næsta umferð ekki fram fyrr en 10. nóvember. Þá fá Víkingar Hauka í heimsókn. Fimmtudaginn 11. nóvember sækir Afturelding ÍBV heim.

Jón Gunnlaugur: Eins og við hefðum ekki hitað upp fyrir leikinn

Jón Gunnlaugur Viggósson, þjálfari Víkinga, segir að sínir menn hafi einfaldlega verið slakir í kvöld.Víkingur

„Ég held að tíu tæknifeilar á fyrstu tíu mínútunum segi allt sem segja það. Mér finnst ótrúlegt að það hafi bara verið 4 marka munur í hálfleik. Við vorum bara arfa slakir í dag,“ sagði Jón Gunnlaugur, þjálfari Víkings eftir tap á móti Aftureldingu í dag. 

Fyrsta mark Víkinga kom ekki fyrr en eftir 5 mínútur. Það tók þá um 20 mínútur að koma sér almennilega inn í leikinn og var Jón ekki sáttur með það.

„Mér fannst við þurfa 15 mínútur til þess að koma okkur í gang. Það var eins og við hefðum ekki hitað upp fyrir leikinn.  Þetta var fyrsti leikurinn sem ég er gríðarlega ósáttur með. Við erum búnir að spila þokkalega hingað til og verið inn í leikjunum. Í dag vorum við bara arfa slakir og það var ekkert sem gekk upp. Eini ljósi punkturinn eða tveir, það var Jovan í markinu og svo Andri Dagur. Það vantaði gríðarlega mikið uppá hjá okkur.“

Nú tekur við smá pása og ætlar Jón að einblína á næsta leik. 

„Við þurfum að halda áfram og það er bara næsti leikur. Tímabilið er langt og við vissum alveg að það yrðu margir leikir sem yrðu brekka hjá okkur. Ég tel þetta vera fyrsta leikinn sem er alvöru brekka. Það er bara næsti leikur og við ætlum okkur tvö stig þar, þannig er þetta bara hjá okkur.“

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.