Fótbolti

Ráku Koeman í flugvélinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ronald Koeman stýrði Barcelona í síðasta sinn í gær.
Ronald Koeman stýrði Barcelona í síðasta sinn í gær. getty/Diego Souto

Forráðamenn Barcelona voru ekkert að tvínóna við hlutina eftir tapið fyrir Rayo Vallecano í spænsku úrvalsdeildinni í gær og ráku Ronald Koeman í flugvélinni á leiðinni frá Madríd til Barcelona.

Barcelona tapaði 1-0 fyrir Rayo Vallecano í gær. Það var kornið sem fyllti mælinn hjá forráðamönnum Barcelona sem ákváðu að segja Koeman upp störfum. Tíðindin komu eflaust fáum á óvart enda sat Hollendingurinn í afar heitu sæti eftir slaka byrjun Börsunga á tímabilinu. Barcelona er í 9. sæti spænsku úrvalsdeildarinnar og hefur ekki byrjað tímabil jafn illa í 34 ár.

Samkvæmt fréttum spænskra fjölmiðla var Joan Laporta, forseti Barcelona, mjög reiður eftir tapið í gær. Eftir að hafa ráðfært sig við aðra stjórnarmenn og meðlimi í starfsliði Barcelona ákvað hann að taka í gikkinn og reka Koeman. Hann fékk tíðindin meðan flugvél Börsunga var í loftinu á leið heim frá Madríd.

Seint í gærkvöldi sendi Barcelona svo frá sér tilkynningu að Koeman hefði verið leystur frá störfum hjá félaginu. Hann stýrði Barcelona aðeins í fjórtán mánuði. 

Brokkreksturinn var ekki ódýr fyrir Barcelona en talið er að Koeman fái tíu milljónir punda frá félaginu vegna starfslokanna. Börsungar eiga í miklum fjárhagskröggum og munar um hverja krónu.

Xavi er talinn líklegastur til að taka við Barcelona. Hann er goðsögn hjá félaginu og var um tíma fyrirliði Barcelona.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.