Sport

Danmörk: Brøndby vann slaginn um Kaupmannahöfn | Íslendingar í eldlínunni

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Ísak Bergmann Jóhannesson í landsleik
Ísak Bergmann Jóhannesson í landsleik Vísir/Jónína Guðbjörg

Það var mikið í gangi í dönsku úrvalsdeildinni, Superligunni, í dag en stærsti leikurinn var án efa Kaupmannahafnarslagur Brøndby og FC Kaupmannahafnar. Brøndby vann leikinn 2-1 og komst með sigrinum upp í efri hluta deildarinnar.

Ísak Bergmann Jóhannesson byrjaði leikinn á miðjunni hjá FC Kaupmannahöfn gegn Brøndby en þeir Andri Fannar Baldursson og Hákon Arnar Haraldsson sátu á bekknum. Það voru Brøndby sem byrjuðu leikinn betur og Morten Frendrup kom liðinu yfir á 23. mínútu eftir undirbúning frá Mikael Uhre.

Þannig stóðu leikar í hálfleik. Eftir um tíu mínútna leik í seinni hálfleik þá fengu Brøndby vítaspyrnu sem að Andreas Maxso skoraði úr. 2-0 og útlitið orðið svart fyrir FC Kaupmannahöfn. Jonas Wind lagaði stöðuna fyrir FCK á 64. mínútu en lengra komust FCK ekki og Brøndby fagnaði sigri, 2-1. Ísak Bergmann spilaði allan leikinn.

Þá mættust Silkeborg og Odense í Silkeborg á Jótlandi. Stefán Teitur Þórðarson byrjaði leikinn fyrir Silkeborg og Aron Elís Þrándarson var á sínum stað á miðjunni hjá Odense. Eftir tíðindalítinn fyrri hálfleik þá komust liðsmenn Silkeborg yfir á 74. mínút þegar að Sebastian Jørgensen skoraði. Allt leit út fyrir að það yrðu úrslit leiksins en á 96. mínútu skoraði Max Fenger og bjargaði jafnteflinu fyrir Odense.

Silkeborg er í fimmta sæti deildarinnar með 19 stig en Odense í því sjöndua með 15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×