Sport

Federer ekki meðal tíu bestu í heimi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Roger Federer er ekki lengur í efstu 10 sætum heimslistans í tennis.
Roger Federer er ekki lengur í efstu 10 sætum heimslistans í tennis. EPA-EFE/NEIL HALL

Svisslendingurinn Roger Federer er ekki lengur meðal tíu bestu tennisspilara í heimi en nýr heimslisti var gefinn út í dag. Hinn fertugi Federer er þó hvergi hættur en hann er sem stendur að jafna sig af meiðslum á hné.

Federer er í 11. sæti heimslistans eftir að hafa lítið spilað undanfarna mánuði vegna meiðsla sem og kórónuveirufaraldursins. Það þarf að leita aftur til janúar árið 2017 til að finna heimslista þar sem Federer var ekki meðal tíu efstu. Þá hafði hann einnig verið frá vegna meiðsla.

Hann er um þessar mundir að jafna sig á meiðslum á hné og mun ekki keppa aftur fyrr en á næsta ári. Það má því reikna með að hann falli enn frekar niður listann. Gæti farið svo að hann detti niður fyrir 20. sæti en það hefur ekki gerst síðan í apríl 2001.

Novak Djokovic er sem fyrr á toppi listans. Þar á eftir koma Daniil Medvedev frá Rússlandi og Stefanos Tsitsipas frá Grikklandi. Bretinn Andy Murray hríðféll niður listann en hann er nú í 172. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×