Sport

Lárus: Sóknarleikurinn ekkert sérstakur þrátt fyrir hundrað stig

Andri Már Eggertsson skrifar
Lárus Jónsson var ánægður með varnarleik liðsins
Lárus Jónsson var ánægður með varnarleik liðsins Vísir/Bára Dröfn

Þór Þorlákshöfn vann nýliða Vestra 100-77. Þetta var fyrsti sigur Íslandsmeistarana í Subway-deildinni. Lárus Jónsson, þjálfari Þór Þorlákshafnar, var ánægður með sigurinn eftir leik. 

„Ég tel þetta hafa verið sigur varnarinnar. Mér fannst sóknarleikurinn ekkert sérstakur, við klikkuðum mikið á opnum skotum.“

„Ég var ánægður með boltapressuna, við þvinguðum skotin þeirra og stigum vel út í fráköstunum,“ sagði Lárus Jónsson um góðan varnarleik liðsins.

Þór Þorlákshöfn spilaði heilt yfir góðan leik. Þór gaf þó eftir á tímabili í 2. leikhluta og hleypti Vestra inn í leikinn. 

„Við vorum að rúlla mikið á liðinu þegar forskotið datt niður. Við vildum hafa ferskar fætur í seinni hálfleik. Ég hafði þó litlar áhyggjur af þessu þar sem við spiluðum góða vörn allan tímann.“

Þriðji leikhluti Þórs sá til þess að sigurinn væri í höfn. Þór gerði 30 stig í leikhlutanum og var Lárus ánægður með spilamennsku liðsins. 

„Ég var ánægður með hvernig strákarnir spiluðu í seinni hálfleik. Við gáfum 32 stoðsendingar sem er afar óeigingjarnt. Á tímabili vorum við of gjafmildir þar sem menn fengu opið skot en gáfu samt boltann,“ sagði Lárus Jónsson. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.