Reykjavíkurborg sendi frá sér fréttatilkynningu í morgun undir yfirskriftinni „Nagladekk eru ekki góður kostur í Reykjavík“. Borgin segir nagladekk hafa verið ofmetin í borgum og að mörg dæmi séu um að borgaryfirvöld banni hreinlega slík dekk eða leggi á þau sérstakt gjald. Það sé aftur á móti ekki leyfilegt samkvæmt umferðarlögum á Íslandi - en borgarbúar hvattir til að ígrunda vel val á dekkjum, nú þegar veturinn er handan við hornið.
Ágústa Þóra Jónsdóttir varaformaður Landverndar áréttar mikilvægi öryggis í umferðinni - en nýjar rannsóknir, til dæmis könnun FÍB frá 2019 og sænsk rannsókn frá 2017, sýni að nagladekk séu ekki endilega besti kosturinn í því tilliti. Eldri rannsóknir á þessu eigi ekki við í borgum í dag.
„Þær voru gerðar á bílum sem eru ekki með stöðugleikakerfi eða ABS-bremsur og í þessum rannsóknum kemur sérstaklega fram að ef bílar eru með stöðugleikakerfi og ABS-bremsur, þá erum við með jafngóð gæði fyrir nagladekk og venjuleg vetrardekk. Og í dag er þetta staðalbúnaður í öllum bílum. Þannig að við erum komin á þann stað þar sem nagladekk eru bara úrelt,“ segir Ágústa .
„Góð vetrardekk eru jafngóð í hálku og nagladekk.“
Nagladekk helsti mengunarvaldurinn
Þá bendir Ágústa á að loftmengun í Reykjavík, sem hafi farið yfir heilsuverndarmörk 52 daga í Reykjavík í fyrra, megi helst rekja til nagladekkja.
„Sjötíu manns á ári eru að deyja ótímabærum dauða út af loftmengun,“ segir Ágústa.
Það sé alls ekki nóg að sópa götur borgarinnar betur.
„Það er algjörlega minniháttar miðað við hverju nagladekkin valda, nagladekkin valda tuttuguföldu sliti á vegunum miðað við venjuleg dekk,“ segir Ágústa.