Umfjöllun og viðtal: Stjarnan - ÍR 113-102 | Heimamenn unnu í framlengingu

Sverrir Már Smárason skrifar
Stjörnumenn unnu góðan 11 stiga sigur eftir framlengingu gegn ÍR.
Stjörnumenn unnu góðan 11 stiga sigur eftir framlengingu gegn ÍR. Vísir/Bára

Stjörnumenn unnu torsóttan sigur á ÍR í fyrsta leik sínum í Subway-deild karla í Garðabæ í kvöld. Lokatölur venjulegs leiktíma 99-99 en Stjörnumenn stigu upp undir lokin og kláruðu svo leikinn í framlengingu 113-102.

ÍR liðið byrjaði af krafti og tóku snemma leiks um tíu stiga forystu. Þeim tókst að loka vel á sókn Stjörnunnar á sama tíma og Stjörnumönnum gekk illa að nýta skotfæri sín. Staðan í hálfleik var 42-53 ÍR-ingum í vil og höfðu leikmenn Stjörnunnar þá nýtt einungis um þriðjung þeirra 43 skota sem þeir tóku.

Stjörnumenn enduðu leikinn með 53 fráköst gegn 36 hjá ÍR og þar af voru þeir með 25 sóknarfráköst. ÍR-ingar héldu sínu forskoti alveg fram í 4.leikhluta en þá virtist sem bensínið væri búið og Stjarnan tók yfir, unnu 4.leikhluta 29-21 og náðu að knýja fram framlengingu.

Í framlengingunni var aldrei spurning hvort liðið myndi vinna leikinn því Stjörnumenn voru á eldi, með Hlyn Bæringsson og Robert Turner, sem í upphafi hitti aðeins einu af fyrstu tíu skotum sínum, fremsta í flokki. Lokatölur í Garðabænum 113-102 og Stjarnan vinnur sinn fyrsta leik í deildinni í ár.

Stigahæstir í liði ÍR voru Shakir Smith með 30 stig, Tomas Zdanavicius næstur með 19 og Colin Pryor þar á eftir með 18 stig. Hjá Stjörnunni voru stigahæstir Shawn Hopkins með 29 stig, Robert Turner næstur með 26 stig og svo Hlynur Bæringsson með 15 stig.

Afhverju vann Stjarnan?

Þeir í raun áttu það varla skilið eftir fyrstu þrjá leikhlutana en þeir héldu áfram, héldu sínu plani og treystu á að skotin myndu detta sem þau svo gerðu. Fráköstin spila einnig stóran þátt en þeir tóku 25 sóknarfráköst og í heild 53 fráköst í leiknum.

Hverjir stóðu upp úr?

Framan af leit Robert Turner út fyrir að vera að spila lélegan leik vegna slæmrar skotnýtingar en í 4.leikhluta gaf hann í og tók yfir völlinn. Auk 26 stiga var hann með 11 fráköst og 10 stoðsendingar.

Shakir Smith skoraði 30 stig og átti 9 stoðsendingar og Colin Pryor skoraði 18 stig og tók 13 fráköst.

Hvað gekk illa?

Það sem gekk illa var skotnýting Stjörnunnar framan af leik og sömuleiðis voru ÍR-ingar að hleypa Stjörnumönnum í alltof mörg sóknarfráköst.

ÍR-ingar sprungu undir lok leiks og þeir þurfa að skoða það hvernig þeir hvíla lykilmenn ef þeir ætla að halda út í næstu leikjum.

Hvað gerist næst?

ÍR-ingar fara í Smárann og mæta Breiðablik föstudaginn 15.október kl. 18:15 og þann sama dag fara Stjörnumenn í Reykjanesbæ og spila við Keflavík kl. 20:15.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira