„Ég er mjög feginn að hafa náð að kreista út þennan sigur því það leit ekki vel út á tímabili. Þetta er víst rosa byrjun á deildinni, ég fór inn í klefa og kíkti á hina leikina og ég held það séu fjórar framlengingar allt í allt,“ sagði Arnar.
Stjörnumenn voru mest allan leikinn að elta og höfðu ÍR lengi um tíu stiga forskot. Öflugur viðsnúningur átti sér stað í 4.leikhluta sem skóp sigurinn.
„Það var nákvæmlega þannig sem það fór. Þetta var mjög erfitt við lentum bæði í vandræðum með þá varnarlega og vorum svolítið ragir sóknarlega. Þeir gengu á lagið svo þetta var löng fæðing“ sagði Arnar.
Stjörnumenn voru með 32% skotnýtingu úr 43 skotum í fyrri hálfleik en enduðu leikinn með 45% nýtingu. Alls ekki nógu gott að mati þjálfarans.
„Mér fannst við bara ekki hitta neitt og sumt af þessu var einfaldlega ÍR-ingar að gera mjög vel og vörðu skot en sumt af þessu voru skot sem við áttum að hitta úr og gerðum ekki. Vítanýtingin var ‚horrifying‘ held ég, undir 60% eða eitthvað. Það var svo ákveðin vinnusemi sem bætti það upp og þess vegna náðum við að vinna en við þurfum augljóslega að spila aðeins betur,“ sagði Arnar um skotnýtinguna.
Staðan eftir 3.leikhluta var 70-78, ÍR-ingum í vil, og náðu Stjörnumenn að knýja fram framlengingu og gengu svo á lagið. Liðið fór að hitta og náði þannig að snúa þessu við segir Arnar.
„Við hittum ofan í. Þetta hljómar ógeðslega asnalega en þegar þú ert ekki búinn að hitta neitt í 3 leikhluta þá hjálpar það heilmikið að fara að hitta,“ sagði Arnar um viðsnúninginn að lokum.