Innlent

Eldflaugareldsneyti lýsti upp himininn í gærkvöldi

Kjartan Kjartansson skrifar
Sólin lýsti upp eldsneytið frá Atlas V-eldflauginni þannig að það skein skært á kvöldhimninum yfir Íslandi og Evrópu.
Sólin lýsti upp eldsneytið frá Atlas V-eldflauginni þannig að það skein skært á kvöldhimninum yfir Íslandi og Evrópu. Atli Þór Jónsson

Margir virðast hafa orðið varir við ljósagang yfir landinu í gærkvöldi. Þar var á ferðinni eldsneyti frá eldflaug sem skotið var á loft með gervitungl í gærdag, að sögn Sævars Helga Bragasonar, ritstjóra Stjörnufræðivefsins.

Fjölmargir samfélagsmiðlanotendur birtu myndir af óvenjulegu ljósi á kvöldhimninum á tíunda tímanum í gærkvöldi. Einn þeirra var Magnús Sveinsson sem náði myndbandi af glæringunum yfir norðurbæ Hafnarfjarðar klukkan 21:13 í gærkvöldi.

Hann segir að sig hafi strax grunað að þar væri einhvers konar eldflaug á ferðinni en fannst skrýtið að „halinn“ sem sést vanalega aftan úr flugvélum eða eldflaugum væri framan á þessari.

Magnús var ekki fjarri lagi því ljósið kom frá eldsneyti úr stórri eldflaug sem var skotið á loft í gærdag. Sævar Helgi, ritstjóri Stjörnufræðivefsins, tísti í gærkvöldi að Atlas V-eldflaug sem var skotið á loft með Landsat 9-gervihnött hafi losað sig við eldsneyti sem sólin lýsti svo upp.

Í samtali við Vísi segir Sævar Helgi að sporbraut eldflaugarinnar hafi legið vel við athugun frá Íslandi. Sólin hafi ekki verið mjög langt undir sjóndeildarhringnum svo hún lýsti upp eldsneytið í um 600 kílómetra hæð.

Ljósið sást um þremur klukkustundum eftir geimskotið og var vel sýnilegt í um það bil tíu mínútur en dofnaði svo þegar eldsneytisskýið hafði dreifst meira. Það sást víða um Evrópu.

Ástæðan fyrir því að eldsneyti var losað úr eldflauginni var sú að til stendur að hún brenni upp í andrúmsloftinu yfir Indlandshafi. Losunin á að draga úr hættu á mengun þegar leifar eldflaugarinnar falla í sjóinn.

Atlas V-eldflauginni var skotið á loft frá Vandanberg-stöðinni í Kaliforníu með Landsat 9-gervitungl innanborðs í gær. Eldsneyti úr eldflauginni sást upplýst yfir Íslandi í gærkvöldi.Vísir/EPA

Landsat-gervitunglin hafa fylgst með jörðinni og skrásett breytingar í hátt í fimmtíu ár. Breska ríkisútvarpið BBC segir að athuganir þeirra séu lengsta samfellda heimild fjarkönnunartækja um breytingar á jörðinni. Landsat-gögnin eru opin öllum án endurgjalds.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.