Um­fjöllun og viðtöl: Valur - Haukar 59-68 | Haukar í bikar­úr­slit í tíunda sinn

Árni Jóhannsson skrifar
Úr leik kvöldsins.
Úr leik kvöldsins. Vísir/Bára Dröfn

Valur tók á móti Haukum í undanúrslitaleik VÍS bikars kvenna í körfubolta fyrr í kvöld. Helena Sverrisdóttir var mætt á kunnuglegar slóðir er hún leiddi sínar konur í áttina að sigri sem tryggði þeim sæti í úrslitaleiknum. Leikar enduðu 59-68 Haukum í vil þar sem sprettir Haukakvenna dugðu til að tryggja sigurinn.

Bæði lið virkuðu taugatrekkt en það var ekki nema von því leikurinn var í undanúrslitum VÍS bikarsins í körfubolta. Eins og Helana Sverrisdóttir sagði í viðtali þá vilja allir alvöru íþróttamenn sækja bikarinn sé hann settur fyrir framan þau og því vildu leikmenn standa sig vel en því fylgir pressa. 

Guðbjörg Sverrisdóttir í leik kvöldsins.Vísir/Bára Dröfn

Lítið var skorað í fyrri hálfleik öllum en bæði lið náðu sínum sprettum og t.a.m. þá skoruðu Valskonur átta stig í röð í lok fyrsta leikhluta til að ná forskotinu í 14-12 þegar honum lauk. Valskonur tóku við og einkenndist leikurinn af því að bæði lið náðu upp fínni vörn en náðu ekki alltaf að nýta góðar varnir til að eiga góðar sóknir. Valskonur áttu svo aftur sterkar stundir í lok fyrri hálfleiks og fóru með tveggja stiga forskot í hálfleik, 28-26.

Valskonur byrjuðu svo seinni hálfleikinn mun betur og náðu sér í sína mestu forystu sem voru sjö stig. Héldu heimakonur Haukum fimm til sjö stigum fyrir aftan sig þangað til um miðjan þriðja leikhluta en þá náðu gestirnir vopnum sínum á báðum endum vallarins, jöfnuðu metin í 38-38 og sigldu svo hægt og bítandi fram úr. Staðan var 44-47 þegar þriðja leikhluta lauk en það voru Haukar sem komu sterkari út í fjórða leikhluta.

Þegar þrjár mínútur voru liðnar af fjórða fjórðung þá var munurinn kominn í 10 stig fyrir gestina og litu þær ekki til baka. Hittni þeirra var mun betri en framan af leiknum og náðu þær að binda saman góðan varnarleik og góðan sóknarleik án þess að Valskonur næðu að svara fyrir sig. 

Haiden Denise Palmer tekur skot.Vísir/Bára Dröfn

Því fór það þannig að Haukar unnu 59-68 og leika til úrslita í bikarkeppninni á laugardaginn næstkomandi gegn Fjölni. Það verður þá í 10. skipti sem Haukar spila til úrslita en Fjölnir er að fara að spila í fyrsta sinn.

Af hverju unnu Haukar?

Þær voru fyrri til að hrista af sér stressið sem fylgir því að spila svona leiki. Varnarleikurinn small saman við sóknarleikinn um miðjan þriðja leikhluta og þær sigldu sigrinum heim á mjög fagmannlegan máta. 

Hvað gekk illa?

Báðum liðum gekk bölvanlega að skora á löngum köflum. Boltinn virtist vera kominn ofan í oft á tíðum en skrúfaðist upp úr og litu nokkrir loftboltar dagsins ljós. Svo þegar á hólminn var komið gekk Valskonum illa að stöðva sóknir Hauka og því fór sem fór.

Tölfræði sem vekur athygli?

Haukar tóku 18 fleiri skot en heimakonur í kvöld. Þær tóku 15 sóknarfráköst á móti fimm en það þarf væntanlega ekki að gefa góðu liði eins og Haukum svona mörg seinni tækifæri því þær hrifsa það til sín.

Bestar á vellinum?

Helena Sverrisdóttir leiddi sínar konur í gegnum þennan bardaga en hún skoraði 16 stig, tók 10 fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Þá spilaði hún mjög góða vörn og var leiðtog inn á vellinum. 

Ameryst Alston í baráttunni.Vísir/Bára Dröfn

Valskonur tefldu fram nýjum leikmanni, Ameryst Alston, en hún olli ekki vonbrigðum. Hún skoraði 34 stig og tók 11 fráköst en hún hefði væntanlega þegið að fá aðstoð frá fleiri liðsfélögum í kvöld. 

Hvað næst?

Eins og hefur komið fram þá spilar Haukar til úrslita í bikarnum á móti Fjölni en Valskonur þurfa að finna sér æfingaleiki fyrir komandi tímabil.

Þetta er ártal á vegginn hérna og við ætluðum að vinna þetta

Ólafur Jónas var svekktur í leikslok.vísir/vilhelm

Þjálfari Valskvenna var að vonum svekktur með úrslit kvöldsins en var á því að liðið hans hefði fengið helling út úr leikjum liðsins í bikarnum. Hann var spurður að því hvar leikurinn hafi tapast.

„Það voru alltof mörg varnarmistök og pínu þreyta í mínu liði. Ég hefði kannski átt að rótera aðeins meira í seinni hálfleik en mér fannst við samt vera þokkalega inn í leiknum og ég er ánægður með stelpurnar mínar. Þær voru mjög flotta.“

Tæknilega séð er undirbúningstímabilið í gangi en þessi keppni skipti samt sem áður máli en Ólafur var sammála blaðamanni þar.

„Auðvitað. Þetta er ártal á veggin hérna og við ætluðum að vinna þetta. Við munum samt mæta þeim aftur og við verðum klárar þar. Mér fannst við fá helling út úr þessum leikjum. Það var gott að fá leik á móti þeim og máta okkur aðeins á móti Haukunum. Við vorum búnar að sjá þær aðeins í sjónvarpinu og vissum að þetta yrði hörku djöfulsins leikur. Við græddum helling á þessu.“

Valur tefldi fram Ameryst Alston í fyrsta sinn í kvöld og var Ólafur spurður að því hvort frammistaða hennar í kvöld endurspeglaði ekki það sem henni væri ætlað fyrir Valskonur.

„Já hún var góð en við þurfum líka ða koma fleirum inn í þetta sóknarlega. Hún var mikið í því að reyna að sanna sig í dag og vonandi komumst við í betra flæði sóknarlega því mér fannst við vera svolítið staðar.“

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.