Innlent

Loka mötu­neyti nem­enda vegna smits í um­hverfi starfs­manna

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Kristinn Þorsteinsson er skólameistari Fjölbrautskólans í Garðabæ.
Kristinn Þorsteinsson er skólameistari Fjölbrautskólans í Garðabæ. Vísir/Egill

Mötuneyti nemenda Fjölbrautaskólans í Garðabæ hefur verið lokað eftir að smit kom upp í nærumhverfi starfsmanna þar og þeir sendir í sóttkví. Skólameistari FG segir að koma verði í ljós hvort reglur um sóttkví og einangrun muni valda miklu raski í skólastarfinu.

„Okkur er ekki kunnugt um nein smit sem hafa átt sér stað innan skólans en aftur á móti er ljóst að það er fólk sem er smitað og það er slatti af nemendum í sóttkví og öðru slíku eins og við er að búast,“ segir skólameistarinn Kristinn Þorsteinsson í samtali við fréttastofu.

Áhrif reglubreytinga komi í ljós

Kennsla í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ hófst á fimmtudaginn síðastliðinn. Kristinn segist ekki gera sér grein fyrir því hversu mikil áhrif sóttkví nemenda og starfsfólks muni hafa á kennsluna í vetur.

„Það á eftir að koma í ljós hvort þetta breytist innan skólans. Nú verða færri settir í sóttkví heldur en var áður. Það á eftir að koma í ljós hvernig það gengur, ég vona að það gangi vel. Ég er mjög ánægður með hvernig þeir nálgast þetta hjá smitrakningarteyminu, að reyna að takmarka þann hóp sem fer. Auðvitað getur komið í ljós að það virki ekki, reynslan verður bara að segja til um það.“ 

Kristinn kveðst ánægður með samstarfið við smitrakningarteymið og vonar vitanlega að skerðing skólastarfs verði sem minnst.

„En við verðum alltaf að vera tilbúin undir það að starfsfólk smitist eða þurfi að fara í sóttkví og þá færumst við meira í fjarnám. Það er alveg viðbúið að þetta verði áfram en það er kannski of skammt liðið til að meta það,“ segir Kristinn.

Hann segir nemendur hafa fengið leiðbeiningar um hvernig best sé að snúa sér í náminu, lendi þeir í sóttkví eða einangrun.

„Óneitanlega mun það reyna mikið á nemendur. Þetta er meira sjálfsnám á meðan. Sóttkvíin er að vísu bara ein vika yfirleitt og þeir missa þá fimm skóladaga úr, en þetta mun alltaf valda erfiðleikum. Það er alveg ljóst.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.