Innlent

Skoða þurfi breytingu á framkvæmd sóttkvíar

Birgir Olgeirsson skrifar
Þórdís Kolbrún Reykjörð Gylfadóttir er ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykjörð Gylfadóttir er ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Vísir/Vilhelm

Skoða þarf breytingar á framkvæmd sóttkvíar ef halda á leikskólum, grunnskólum og atvinnulífi gangandi á næstu vikum. Þetta segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í samtali við fréttastofu.

Tveir ráðherrar til viðbótar hafa lagt áherslu á að skoða þurfi reglur um sóttkví ef samfélagið á ekki að lamast þegar skólarnir hefjast. Um sjö hundruð börn eru í sóttkví nú þegar.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, sagði í Pallborðinu á Vísi í gær að markmiðið hefði ávallt verið að lágmarka áhrif sóttvarnaaðgerða á skólastarf. Því þyrfti að skoða framkvæmd sóttkvíar og hraðprófa til að halda í við þá stefnu. 

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra, sagði að loknum ríkisstjórnarfundi í gær að taka þurfi þetta fyrirkomulag til endurskoðunar til að halda samfélaginu gangandi.

Þórdís segir veiruna það víða í samfélaginu að með núverandi framkvæmd mun stór hópur fólks þurfa að vera í sóttkví á hverjum tíma.

„Mér finnst það eðlileg vangavelta að spyrja sig að því hvernig við ætlum að glíma við það og því þurfum við að svara,“ segir Þórdís.

Sigurður Ingi sagði sömuleiðis að skoða þyrfti hvort hætt yrði alveg við sóttkví fullbólusettra.

Spurð út í þessi ummæli Sigurðar um sóttkví fullbólusettra svarar Þórdís: „Hann var þarna að viðra sínar skoðanir og ég get alveg tekið undir þær.“

Hún vill einnig skoða notkun hraðprófa sem eru notuð víða um heim.

„Við erum einfaldlega komin á þann stað að við hljótum líta til annarra verkfæra til að geta komist í eðlilegt líf en samt sem áður lifað með því að þarna er faraldur og veira sem við þurfum að hafa einhverja vitneskju hvar hún er og hvaða áhrif hún hefur. Hraðpróf er bara enn eitt verkfærið sem við eigum að sjálfsögðu að nota.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.