Sport

Warner fór yfir níu þúsund stigin í metþraut og Thiam vann aftur gullið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Damian Warner helti vatni yfir sig eftir síðustu þrautina þegar Ólympíugullið og Ólympíumetið var í höfn.
Damian Warner helti vatni yfir sig eftir síðustu þrautina þegar Ólympíugullið og Ólympíumetið var í höfn. AP/Francisco Seco

Kanadamaðurinn Damian Warner varð Ólympíumeistari í tugþraut og Nafissatou Thiam frá Belgíu vann sjöþrautina þegar þrautirnar í frjálsíþróttakeppni Ólympíuleikanna í Tókýó kláruðust í dag.

Thiam var að endurtaka leikinn frá því á síðustu leikum en Warner var aftur á móti að vinna sitt fyrsta gull á stórmóti.

Warner setti Ólympíumet og komst yfir níu þúsund stigin í lokagreininni þar sem hann náði í 738 stig. Warner endaði því með 9018 stig sem er líka landsmet.

Warner fékk bronsið í Ríó fyrir fimm árum. Frakkinn Kevin Mayer fékk silfur og Ástralinn Ashley Moloney tók bronsið. Sigur Warner var öruggur en hann fékk 292 stigum meira en Mayer og 369 meira en Moloney.

Kevin Mayer var að vinna silfur á öðrum leikunum í röð en hann varð annar á eftir Bandaríkjamanninum Ashton Eaton í Ríó.

Nafissatou Thiam frá Belgíu varði Ólympíumeistaratitil sinn í sjöþraut eftir harða keppni en Benelux löndin áttu allar bestu konurnar.

Thiam endaði með 6791 stig eða 10ö2 fleiri stig en Anouk Vetter frá Hollandi sem fékk silfur. Hollendingurinn Emma Oosterwegel varð síðan þriðja með 6590 stig en hún fékk 19 fleiri stig en Noor Vidts frá Belgíu sem varð að sætta sig við fjórða sætið.

Thiam var sú fyrsta síðan Jackie Joyner-Kersee (1988 og 1992) til að vinna sjöþrautina á tvennum leikum í röð.

Bahamamaðurinn Steven Gardiner vann 400 metra hlaupið á 43,85 sekúndum, Anthony Zambrano frá Kólumbíu tók silfrið á 44,08 sekúndum og Kirani James frá Grenada fékk bronsið eftir að hafa komið í mark á 44,19 sekúndum.

Kirani James á nú allt verðlaunasafnið í 400 metrunum því hann varð Ólympíumeistari í London 2012 en vann silfur í Ríó og svo bronsið í dag.

Hin bandaríska Katie Nageotte varð Ólympíumeistari í stangarstökki kvenna eftir mikla baráttu við Rússann Anzheliku Sidorova sem fékk silfur.

Nageotte fór yfir 4,90 metra en Sidorova komst ekki hærra en 4,85 metra. Bretinn Holly Bradshaw fór líka yfir 4,85 metra en felldi oftar og varð því að sætta sig við brons. Ólympíumeistarinn frá því í Ríó 2016, Katerina Stefanidi frá Grikklandi, varð fjórða.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.