Innlent

Hafa þurft að fresta hjarta­að­gerðum vegna skorts á gjör­gæslu­rýmum

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Tómas Guðbjartsson er yfirlæknir á Landspítalanum og prófssor við læknadeild Háskóla Íslands.
Tómas Guðbjartsson er yfirlæknir á Landspítalanum og prófssor við læknadeild Háskóla Íslands.

Uppsveifla í smitum innanlands hefur gríðarleg áhrif á starfsemi Landspítala að sögn skurðlæknis sem segir skorta skilning á viðkvæmri stöðu spítalans. Fresta hefur þurft hálfbráða hjartaaðgerðum vegna skorts á gjörgæslurýmum.

Tölurnar ekki svo einfaldar

Lítill hluti þeirra sem hafa smitast í þessari stærstu bylgju faraldursins hefur þurft á spítalainnlögn að halda eða einungis 24 af þeim 1.470 smituðu. Skurðlæknir á Landspítalanum segir að tölurnar séu þó ekki svo einfaldar.

„Við Íslendingar höfum mun færri gjörgæslurúm per hundrað þúsund íbúa en nágrannaþjóðirnar og þetta höfum við vitað lengi en ástandið er sérstaklega erfitt núna í sumar því það var tekin sú ákvörðun í upphafi sumars að fækka þeim úr þrettán á Landspítala í tíu þannig að við máttum illa við þessari nýjustu bylgju kórónuveirunnar.“

Tómas segir að hafa verði í huga að einn sjúklingur með Covid-19 sé ekki sambærilegur öðrum sjúklingum. Hann krefjist mun meiri hjúkrunar og læknisumönnunar.

„Og það er miklu flóknara með sóttvarnir gagnvart öðrum sjúklingum sem liggja þarna inni þannig ástandið hefur verið mjög erfitt undanfarið.“

Skorti skilning á erfiðri starfsemi

„Mér finnst ekki alltaf gæta skilnings á starfsemi spítalans og í rauninni hvað hún er viðkvæm. Það jákvæða í þessu er samt að gjörgæslumeðferð á Íslandi er af mjög miklum gæðum og það sannaðist núna í þessum stærsta kúfi til dæmis upp á það hversu margir lifðu meðferðina af. Meðferðin er mjög góð en hún er veitt við mjög erfiðar aðstæður og í húsnæði sem er algjörlega orðið úrelt.“

Fresta hálfbráða hjartaaðgerðum

Hann segir starfsfólk langþreytt og að faraldurinn hafi keðjuverkandi áhrif á aðra starfsemi spítalans. Nefnir hann sjúklinga á hjartadeildinni sem dæmi.

„Við erum háðir því að koma okkar sjúklingum fyrir á gjörgæslu eftir allar opnar hjartaaðgerðir. Það hefur verið mjög erfitt núna undanfarnar tvær vikur að koma sjúklingum að. Sjúklingar sem hafa hreinlega þurft að bíða inniliggjandi og ekki komist í aðgerð vegna þess að það hefur ekki veri neitt gjörgæslurými til að koma þeim fyrir í. Þetta eru ekki sjúklingar sem eru beint í lífshættu, þeim sinnum við auðvitað alltaf en þetta eru samt sjúklingar sem hefðu þurft aðgerð fyrr og er óæskilegt að bíða með svona lengi.“

Lítið megi út af bregða

Starfsemin sé brothætt og litlu þurfi að muna svo að illa geti farið. Ekki megi gleyma að spítalinn hafi ekki verið efldur á tímum heimsfaraldurs. Því þurfi innanlandsaðgerðir.

„Það þarf ekki annað en eitthvað slys eða annað sem gæti lagt starfsemina á hliðina í rauninni og ég tala nú ekki um ef það myndi fjölga mjög Covid-19 smitum vegna þess að við förum óvarlega eða tökum þetta ekki föstum tökum þá getur það haft mjög mikil áhrif fyrir aðra sjúklinga líka.“


Tengdar fréttir

Skoða að koma varan­legri Co­vid-deild á lag­girnar

Heilbrigðisráðherra segir að verið sé að skoða hvort hægt sé að koma á laggirnar varanlegri Covid-einingu á Landspítalanum. Sextán liggja nú inni á sjúkrahúsi með Covid-19 og Landspítalinn er á hættustigi vegna stöðu faraldursins.

Kalla starfs­fólk úr sumar­leyfum vegna á­lags og opna nýja Co­vid-deild

Einn liggur í öndunarvél á Landspítalanum vegna Covid-19 og er það í fyrsta sinn sem sjúklingur hefur þurft á slíkri aðstoð að halda í þessari fjórðu bylgju faraldursins. Unnið er að opnun nýrrar Covid-deildar á spítalanum og hefur þurft að kalla starfsfólk úr sumarleyfum vegna álags.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.