Fótbolti

Þýsku meistararnir koma inn í tímabilið án sigurs

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Nagelsmann á hliðarlínunni í dag.
Nagelsmann á hliðarlínunni í dag. vísir/Getty

Hvorki hefur gengið né rekið hjá þýska stórveldinu Bayern Munchen í æfingaleikjum á undirbúningstímabilinu þar sem liðið hefur ekki unnið einn leik.

Í dag tapaði Bayern Munchen 0-3 fyrir ítalska úrvalsdeildarliðinu Napoli en áður höfðu Bæjarar tapað 0-2 fyrir Borussia Mönchengladbach og 2-3 fyrir Köln auk þess að gera 2-2 jafntefli við Ajax.

Leikurinn í dag var síðasti leikur liðsins á undirbúningstímabilinu en næstkomandi föstudag mæta þeir neðri deildarliðinu Bremer SV í þýsku bikarkeppninni og viku síðar hefst Bundesligan með leik gegn Borussia Mönchengladbach.

Hinn 34 ára gamli Julian Nagelsmann tók við stjórnartaumunum hjá Bayern í sumar eftir að hafa áður stýrt RB Leipzig og Hoffenheim í þýska boltanum.

„Að sjálfsögðu er þetta ekki gott. Við áttum fínan fyrri hálfleik í dag. Ég er ánægður með að fá landsliðsmennina til baka og þeir náðu að spila 45 mínútur sem er mikilvægt. Á mánudag fáum við þrjá lykilmenn til baka úr sumarfríi og þá getum við æft allir saman í fyrsta skiptið,“ sagði Nagelsmann eftir tapið gegn Napoli.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.