Lífið

Helgi Björns streymir frá Borginni í kvöld

Árni Sæberg skrifar
Búast má við að Helgi verði í stuði að vanda.
Búast má við að Helgi verði í stuði að vanda. Aðsend/Brynja Kristinsdóttir

Helgi Björnsson ætlar að heimsækja alla landsmenn í beinu streymi frá Hótel Borg í kvöld ásamt Reiðmönnum vindanna.

 „Þetta verður einlægt og skemmtilegt, svona í þeim anda sem við erum þekkt fyrir. Við ætlum að eiga saman gæðastund og bjóða upp á vandaða tónlistardagskrá í takt við það sem við höfum verið að gera en við stráum fallegum sumartónum yfir þetta,” segir Helgi.

Fréttamaður Stöðvar 2 ræddi við mann kvöldsins í kvöldfréttum.

Helgi vildi ekkert gefa upp um hverjir koma fram með honum í kvöld en öruggt er að fullyrða að þar verði á ferð einvalalið tónlistarmanna.

„Hugmyndin var upphaflega að bjóða þeim sem almennt eru ekki að sækja tónlistarhátíðir um verslunarmannahelgar kost á að kaupa til sín tónlistarflutning ef svo má segja,“ bætir hann við. 

Ákvörðunin var tekin í vor en eftir nýlegar breytingar á samkomutakmörkunum virðist hann nú vera einn af fáum tónlistarmönnum sem mun ná að koma fram eins og til stóð.

Ein stór breyting er þó á þessari dagskrá sem Helgi hefur boðið upp á en hún er sú að í stað Hlöðunnar góðu verður sent út frá Hótel Borg og nú eru tónleikarnir svokallaðir streymistónleikar. Hægt er að tryggja sér aðgang að þeim í gegnum móttakara stóru símafyrirtækjanna sem og á tix.is.

Þannig verður kvöldskemmtun Helga og Reiðmannanna aðgengileg öllum, hvar sem þeir eru í heiminum. Streymið hefst klukkan 21:00.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.