Sport

Björgvin Karl náði sjötta sætinu í mjög krefjandi fyrstu grein á heimsleikunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Allir keppendur fóru af stað á sama tíma, karlarnir voru með bláar sundhettur en konurnar bleikar.
Allir keppendur fóru af stað á sama tíma, karlarnir voru með bláar sundhettur en konurnar bleikar. Instagram/@crossfitgames

Björgvin Karl Guðmundsson og Katrín Tanja Davíðsdóttir náðu bestum árangri íslenska CrossFit fólksins í opnunargrein heimsleikanna í CrossFit sem fóru af stað í dag en framundan eru þrjár greinar í viðbót áður en fyrsti dagurinn er úti.

Heimsmeistari síðustu fjögurra ára, Tia-Clair Toomey frá Ástalíu, byrjar keppnina þar sem hún hefur endað undanfarin ár. Hún vann fyrstu grein og er því þegar komin í forystu. Finninn Jonne Koski vann aftur á móti mjög öruggan sigur hjá körlunum.

Eins og áður er upphafsgrein heimsleikanna allt öðruvísi en aðrar greinar á leikunum og það breyttist ekki í ár. Keppendur þurftu að synda í 1600 metra (með sundblöðkum) og fara síðan á kajak í meira en þrjá kílómetra og allt á opnu vatni við Madison.

Allir áttatíu keppendur í karla- og kvennaflokki byrjuðu á sama tíma og það var því mikil örtröð í byrjun keppninnar.

Björgvin Karl Guðmundsson stóð sig vel mjög og náði sjötta sætinu hjá körlunum sem er mjög gott hjá okkar manni í grein sem er afar erfitt að undirbúa sig fyrir í kuldanum á Íslandi.

Katrín Tanja Davíðsdóttir stóð sig líka vel og náði þrettánda sætinu hjá konunum. Hún græddi örugglega á því að hafa geta æft útisundið þar sem hún er búsett í Bandaríkjunum.

Anníe Mist Þórisdóttir náði átjánda sætinu og varð næstbest af íslensku stelpunum en Þuríður Erla Helgadóttir varð í 25. sætinu.

Finninn Jonne Koski stakk af frá byrjun í sundinu enda frábær sundmaður. Hann gaf heldur ekkert eftir þegar hann var kominn í kajakinn og vann með miklum yfirburðum.

Koski kláraði allt saman á einni klukkustund, sex mínútum og 44 sekúndum sem er frábær tími. Annar var Serbinn Lazar Dukic sem var líka mjög sannfærandi á kajakanum. Kanadamaðurinn Alex Vigneault varð síðan þriðji.

Amanda Barnhart var fljótust að synda en gekk ekki vel á kajakanum og var fljót að missa forystuna til Kristi Eramo O'Connell og Emmu Tall. Tia-Clair Toomey var ekki langt á eftir í sundinu og stóð sig síðan frábærlega þegar hún var kominn í kajakinn.

Toomey varð fyrst kvenna og kláraði á einni klukktímum tíu mínútum og 50 sekúndum og vann sína 25. grein á heim. Hún varð rétt á undan Eramo O'Connell eftir mikinn endasprett.

 • Staðan hjá körlunum eftir fyrstu grein á heimsleikunum 2021:
 • 1. Jonne Koski 100 stig
 • 2. Lazar Dukic  97 stig
 • 3. Rogelio Gamboa 94 stig
 • 4. Brandon Luckett  91 stig
 • 5. Justin Medeiros 88 stig
 • 6. Björgvin Karl Guðmundsson 85 stig
 • -
 • Staðan hjá konunum eftir fyrstu grein á heimsleikunum 2021:
 • 1. Tia-Clair Toomey 100 stig
 • 2. Kristi Eramo O'Connell  97 stig
 • 3. Emma Tall 94 stig
 • 4. Emily Rolfe 91 stig
 • 5. Haley Adams 88 stig
 • 6. Emma Cary  85 stig
 • 13. Katrín Tanja Davíðsdóttir 64 stig
 • 18. Anníe Mist Þórisdóttir 49 stig
 • 25. Þuríður Erla Helgadóttir 32 stigFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.