Sport

Naomi Osaka óvænt úr leik í tenniskeppni kvenna á Ólympíuleikunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Naomi Osaka komst ekki í átta manna úrslitin á Ólympíuleikunum.
Naomi Osaka komst ekki í átta manna úrslitin á Ólympíuleikunum. AP/Seth Wenig

Naomi Osaka, ein af andlitum Ólympíuleikanna í Tókýó og sú sem kveikti Ólympíueldinn á setningarhátíðinni, er óvænt úr leik í tenniskeppni leikanna.

Osaka vann tvo fyrstu leiki sína á leikunum en féll úr keppni í nótt eftir tap á móti hinni tékknesku Marketu Vondrousova í tveimur settum, 6-1 og 6-4.

Osaka var númer tvö á styrkleikalista leikanna en hún er fædd í Japan en ólst upp í Bandaríkjunum. Vondrousova kom aftur á móti inn í mótið í sæti númer 42 á styrkleikalistanum.

Osaka var að koma til baka eftir að hafa tekið sér tveggja mánaða frí til að huga að andlegri heilsu sinni. Hún hefur unnið fjóra risatitla á ferlinum eða einn á hverju ári frá og með sigri sínum á Opna bandaríska mótinu 2018.

Osaka byrjaði þetta ár með því að vinna opna ástralska mótið en hætti svo keppni í 2. umferð opna franska meistaramótsins og sleppti svo Wimbledon mótinu.

Þrjár efstu á styrkleikalista mótsins hafa nú dottið úr keppni. Sú efsta, Ashleigh Barty, datt út í fyrstu umferð, og sú þriðja, Aryna Sabalenka, datt út í annarri umferð.

Hin 22 ára gamla Vondrousova er sú fyrsta til að tryggja sér sæti í átta manna úrslitunum. Hún hefur ekki unnið risatitil en komst í úrslitaleikinn á opna franska meistaramótinu árið 2019.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×