Íslenski boltinn

FH-ingar skoruðu sjö, þrenna í Grindavík og Víkingur og Afturelding með góða sigra

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
FH-konur skoruðu sjö í stórsigri í kvöld.
FH-konur skoruðu sjö í stórsigri í kvöld. VÍSIR/ANTON

Fjórir leikir fóru fram í Lengjudeild kvenna í kvöld. FH-ingar unnu 7-1 stórsigur þegar Augnablik mætti í heimsókn, Víkingur vann góðan 2-0 heimasigur gegn Haukum, Grindvíkingar komust upp úr fallsæti þegar Christabel Oduro skoraði þrennu í 3-1 sigri gegn Gróttu og Afturelding vann 2-0 útisigur gegn HK.

Brittney Lawrence og Sigríður Lára Garðarsdóttir komu FH-ingum í 2-0 áður en Birta Birgisdótti minnkaði muninn fyrir gestina eftir rúmlega hálftíma leik.

Hildur Marí Jónsdóttir og Elísa Lana Sigurjónsdóttir bættu sitthvoru markinu við fyrir hálfleik og sáu til þess að staðan var 4-1 þegar gengið var til búningsherbergja.

Sigrún Ella Einarsdóttir kom heimakonum í 5-1 áður en Elísa Lana bætti öðru marki sínu við á 61. mínútu. 

Sigríður Lára skoraði sitt annað mark þegar rúmar fimm mínútur voru til leiksloka og gulltryggði FH-ingum 7-1 sigur og liðið er enn aðeins tveim stigum á eftir toppliði KR.

Augnablik er hinsvegar enn á botninum með átta stig.

Hulda Ösp Ágústsdóttir kom Víkingum yfir í uppbótartíma fyrri hálfleiks geg Haukum og staðan því 1-0 þegar gengið var til búningsherbergja.

Kristín Inga Sigurlásdóttir tvöfaldaði forysti heimakvenna á 52. mínútu, en það reyndist lokamark leiksins.

Víkingar fara upp í fjórða sæti deildarinnar með 16 stig, en Haukar eru með stigi minna í því fimmta.

Christabel Oduro skoraði öll mörk Grindvíkinga sem vann 3-1 heimasigur gegn Gróttu. Eina mark Gróttu skoraði Eydís Lilja Eysteinsdóttir, en sigurinn lyftir Grindavík upp úr fallsæti.

Þá skoraði Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir bæði mörk Aftureldingar þegar liðið vann 2-0 útisigur gegn HK. Það fyrra kom tveim mínútum fyrir hálfleik, og það seinna í uppbótartíma venjulegs leiktíma.

HK er því komið niður í fallsæti með níu stig, en Afturelding er í harðri baráttu um sæti í deild þeirra bestu með 25 stig í þriðja sæti.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.