Mikill kraftur var í gosinu nú um helgina og þegar mest lét mátti sjá bjarma þess frá höfuðborgarsvæðinu, sem hefur iðulega gerst þegar það er í hvað kraftmestum ham. Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, segir þetta stemma við það mynstur sem sést hefur á gosstöðvunum undanfarið.
Hann segir að í síðustu viku hafi orðið smávægileg breyting á hegðun gossins í gígnum sjálfum. Í stað stuttra, púlskenndra kvikustróka á tuttugu mínútna fresti hafi orðið sígos í gígnum, með stöðugum kvikustrókum sem vörðu í sex til sextán tíma. Slíkar hrinur eru nú orðnar fimm talsins, frá því hegðunin breyttist.
„Gosið er í raun og veru bara í sama ham og það er búið að vera undanfarnar vikur og mánuði, en þetta sem það er að sýna okkur á yfirborðinu hefur breyst aðeins. Þetta gefur okkur bara fjölbreytt sjónarspil,“ segir Þorvaldur.
Þorvaldur segir svo gott sem ómögulegt að ráða í það hvenær gosinu muni ljúka, út frá hegðun þess í dag.
„Það getur hætt á morgun, eða eftir þrjú ár eða eftir þrjátíu ár. Ég held að það sé óhætt að segja það að það sem við erum að horfa á núna í sambandi við virknina, það eru engin skýr merki um það að gosið sé að hægja á sér eða fara að hætta.“