Sport

Ásgeir varð í 28. sæti og komst ekki í úrslit

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ásgeir í keppninni í Japan í nótt.
Ásgeir í keppninni í Japan í nótt. EPA-EFE/MICHAEL REYNOLDS

Ásgeir Sigurgeirsson keppti fyrstur íslenskra keppenda á Ólympíuleikunum í Tókýó í nótt. Hann keppti í forkeppni skotfimi með loftbyssu af 10 metra færi en komst ekki áfram í úrslit.

36 keppendur voru í greininni þar sem keppt var í sex umferðum í forkeppninni, með tíu skot í hverri umferð. Ásgeir byrjaði vel er hann hlaut 95 og 98 stig í fyrstu tveimur umferðunum en aðeins 91 og 92 stig í næstu tveimur á eftir. Hann fékk þá 97 stig í síðustu tveimur umferðum forkeppninnar, alls 570 stig.

Það er 19 stigum frá Íslandsmeti hans í greininni, upp á 589 stig fyrir átta árum síðan. Betra skor í þriðju og fjórðu umferð hefðu dugað honum áfram en hann var aðeins átta stigum frá þeim 578 sem dugðu til að vera meðal efstu átta manna sem fóru í úrslit.

28. sæti var hins vegar niðurstaðan og hefur Ásgeir því lokið keppni á leikunum í ár en þetta er í annað skipti sem hann tekur þátt.

Íraninn Javad Foroughi varð Ólympíumeistari í greininni eftir frábæra frammistöðu í úrslitum. Hann hlaut þar 244,8 stig, sem er ólympíumet. Serbinn Damir Mikec var annar með 237,9 stig og Wei Pang frá Kína þriðji með 217,6 stig.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.