Körfubolti

Sögu­leg frammi­staða Giannis sem var valinn verð­mætasti leik­maður úr­slita­ein­vígisins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Giannis Antetokounmpo var hreint út sagt stórkostlegur í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar.
Giannis Antetokounmpo var hreint út sagt stórkostlegur í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar. Jonathan Daniel/Getty Images

Giannis Antetokounmpo skoraði 50 stig er Milwaukee Bucks tryggði sér meistaratitilinn í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Giannis var valinn verðmætasti leikmaður einvígisins að leik loknum. 

Frammistöður hans í einvígi Bucks og Phoenix Suns hafa verið með þeim bestu í sögunni. Tölfræðin talar sínu máli.

Eftir að hafa lent 0-2 undir í úrslitaeinvíginu þá fullkomnu Bucks endurkomuna í nótt og unnu seríuna 4-2. Félagið er því orðið meistari í aðeins annað sinn í sögu þess en 50 ár eru frá síðasta meistaratitli.

Hinn 26 ára gamli Giannis lagði grunninn að sigrinum í nótt sem og einvíginu með frábærum frammistöðum. Engin þó betri en í nótt þar sem hann skoraði 50 stig, tók 14 fráköst og hindraði fimm skot. Þá skoraði hann úr 17 af 19 vítaskotum sínum.

Gríska undrið skoraði að meðaltali 35,2 stig í einvíginu gegn Suns ásamt því að taka 13,2 fráköst og gefa 5 stoðsendingar. Hann er aðeins annar leikmaður í sögu deildarinnar til að skora yfir 35 stig að meðaltali í úrslitum ásamt því að taka yfir 10 fráköst og gefa yfir 5 stoðsendingar.

Hinn leikmaðurinn er LeBron James en hann náði því með Cleveland Cavaliers árið 2015.

Ef það var ekki nóg þá eru Giannis og Shaquille O’Neal einu tveir leikmennirnir sem hafa skorað yfir 40 stig og tekið 10 fráköst eða meira í þremur leikjum í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar.

Shaq náði því með Los Angeles Lakers árið 2000.

Það sem gerir þessa tölfræði enn magnaðri er að fyrir einvígið var alls óvíst hvort Giannis gæti tekið þátt í því þar sem hann var tæpur eftir að meiðast á hné gegn Atlanta Hawks í úrslitum Austurdeildarinnar.

Leikurinn í nótt var hinn fullkomni endir á svo gott sem fullkomnu tímabili fyrir Giannis sem varð einnig aðeins þriðji leikmaður í sögu deildarinnar til að valinn verðmætasti leikmaður deildarkeppninnar, verðmætasti leikmaður úrslitaeinvígisins og varnarmaður ársins.

Michael Jordan og Hakeem Olajuwon náðu einnig þeim áfanga á ferli sínum. 

Hér að neðan má svo sjá ótrúlega frammistöðu Giannis í síðari hálfleik leiksins í nótt þar sem hann var einfaldlega óstöðvandi. Það skipti engu máli þó Suns hefðu verið yfir í hálfleik, hann skoraði 33 af 50 stigum sínum í síðari hálfleik og tryggði Bucks fyrsta titilinn í hálfa öld. 

Gríska undrið kom, sá og sigraði.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×