Innlent

For­setinn þakkar heilsu­gæslunni en segir verk að vinna í bar­áttu við veiruna

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Guðni Th. Jóhannesson forseti þakkar starfsfólki Heilsugæslunnar fyrir vel unnin störf í bólusetningarátakinu.
Guðni Th. Jóhannesson forseti þakkar starfsfólki Heilsugæslunnar fyrir vel unnin störf í bólusetningarátakinu. Vísir/Vilhelm

„Kæru vinir. Bólusetningu vegna heimsfaraldurs er núna lokið í bili. Sú aðgerð tókst með eindæmum vel, meðal annars vegna þess að landsmenn áttuðu sig vel á nauðsyn þess að grípa til varna af því tagi.“

Svona hefst bréf Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Bréfið var sent í gær en birtist á Facebook-síðu Heilsugæslunnar í dag. Það er stílað á Óskar Reykdalsson, forstjóra heilusgæslunnar, Ragnheiði Ósk Erlendsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar, Jórlaugu Heimisdóttur verkefnisstjóra, og Heilsugæsluna alla.

Þar segir að áhuga landans á að þiggja bólusetningu megi þakka skilaboðum sérfræðinga, trúverðugleika þeirra og fumlausri framgöngu.

„En bólusetningaráætlun okkar heppnaðist ekki síður vel vegna þess að starfsfólk á vettvangi vann sín verk af stakri samviskusemi og þekkingu, lipurð og hlýju.“

Fyrir hönd íbúa landsins færir forsetinn öllu því fólki sem komið hefur að bólusetningu vegna farsóttarinnar með einhverjum hætti, innilegar þakkir og hlýjar kveðjur og segir að án starfsliðs Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á vettvangi hefði ekki náðst jafn góður árangur í baráttunni við veiruna sem raun ber vitni.

„Enn þurfum við að hafa varann á. Enn er verk að vinna. En gott gengi hingað til má blása okkur bjartsýni í brjóst. Með góðri kveðju, Guðni Th. Jóhannesson.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×