Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Handlæknastöðinni en umræddur læknir starfaði þar fram í desember 2019. Forsvarsmenn segjast harma framferði umrædds háls-, nef- og eyrnalæknisins og að málið sé blettur á fjörutíu ára sögu læknastöðvarinnar.
Umræddur læknir framkvæmdi tólf ónauðsynlegar aðgerðir að mati óháðra sérfræðinga, þar á meðal á fimmtán og tveggja ára börnum. Læknirinn er talinn hafa stefnt sjúklingum í hættu.
Í yfirlýsingu Handlæknastöðvarinnar kemur fram að það hafi verið vegna árvekni vinnufélaga sem athygli hafi verið vakin á því að mögulega kynni vinnulag viðkomandi læknis að hafa verið ámælisvert.
Fyrst var fjallað um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær og má sjá fréttina í spilaranum hér fyrir neðan.
„Þann 4. desember 2019, um leið og grunsemdir lágu fyrir, tilkynnti stjórnarformaður Handlæknastöðvarinnar Embætti landlæknis um hugsanleg brot umrædds læknis gegn starfsskyldum. Í kjölfarið gerði Handlæknastöðin Sjúkratryggingum Íslands einnig viðvart um málið,“ segir í yfirlýsingunni.
Strax hafi verið ráðist í að herða allt eftirlit með verkferlum innan stöðvarinnar og innra eftirlit sé nú í áframhaldandi þróun.
„Verður einskis látið ófreistað til þess að hámarka hér eftir sem hingað til fagmennsku stöðvarinnar í hverju læknisverki sem unnið er undir merkjum hennar.“
Heilbrigðisráðuneytið staðfest ákvörðun landlæknis
Eiríkur Orri Guðmundsson, stjórnarformaður Handlæknastöðvarinnar, er skrifaður fyrir yfirlýsingunni. Þar segir að framferði umrædds læknis sé sorglegt frávik frá þeim gæðaviðmiðum sem stöðin hafi haft í heiðri.
„Á þessum misgjörðum viðkomandi læknis, á meðan hann starfaði innan veggja stöðvarinnar, biðst Handlæknastöðin innilega afsökunar enda þótt hún beri ekki á þeim ábyrgð gagnvart sjúklingum hans.“
Upp komst um málið á síðasta ári eftir að embætti landlæknis fékk ábendingu um vafasama starfshætti læknisins. Grunur var um að læknirinn væri ekki að beita ásættanlegri læknisfræði í aðgerðum sínum og að hann væri að framkvæma ónauðsynlegar aðgerðir, bæði á börnum og fullorðnu fólki.
Embætti landlæknis réðst í umfangsmikla rannsókn vegna málsins og hefur heilbrigðisráðuneytið staðfest þá ákvörðun landlæknis að svipta lækninn starfsleyfi.