„Við töpum þessum leik á aulaskap í föstum leikatriðum, við áttum að dekka helvítis mennina sem skora mörkin tvö fyrir Val," sagði Alfreð súr eftir leik.
Fyrri hálfleikurinn var tíðindalítill og gáfu bæði lið fá færi á sig.
„Mér fannst við gera vel í leiknum, við lokuðum á þeirra styrkleika sérstaklega í fyrri hálfleik en það telur ekki neitt þegar við fáum á okkur tvö aula mörk úr föstum leikatriðum."
Mist Edvardsdóttir gerði fyrsta mark leiksins snemma í síðari hálfleik sem kom Val á bragðið.
„Það er alltaf slæmt að fá á sig mark í upphafi síðari hálfleiks og við verðum einfaldlega að gera betur á móti svona sterku liði."
Valur vildi fá rautt spjald á Önnu Maríu Baldursdóttur þegar hún og Mary Alice lentu saman en Alfreð fannst það ýkjur þar sem þetta var aðeins samstuð í baráttu.
„Ég er ánægður með spilamennsku liðsins og hugarfar leikmanna í kvöld en við verðum að gera betur í föstum leikatriðum og er ég því hundsvekktur að tapa þessum leik," sagði Alfreð Elías svekktur
Valur styrkti stöðu sína á toppnum með sigri og er komið með andrými frá Selfossi en Alfreð hefur ekki mist trúna um titilinn.
„Það eru allir að vinna alla í þessu móti og því er baráttan um toppsætið ekki búinn," sagði Alfreð að lokum.