Innlent

„Ég held að við eigum eftir að sjá meira af þessu“

Atli Ísleifsson og Nadine Guðrún Yaghi skrifa
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir rannsóknir benda til að bólusettir smiti frá sér í minna mæli en aðrir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir rannsóknir benda til að bólusettir smiti frá sér í minna mæli en aðrir. Vísir/Vilhelm

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að smitin fimm sem greindust innanlands um helgina séu ekki þessi hefðbundnu innanlandssmit sem við höfum verið að sjá. „Þetta eru ferðamenn sem koma hér inn og eru að fá vottorð á leiðinni út úr landinu og greinast þá jákvæð.“

Þórólfur telur að við munum sjá meira af innanlandssmitum sem þessum á næstu misserum. „Sérstaklega núna þegar við ætlum að hætta að taka vottorð af þessum… Margt af þessu fólki er bólusett og var neikvætt við komuna hingað og hefur tekið í sig veiruna á leiðinni hingað.

Við vitum að bólusettir geta tekið veiruna. Þetta er fólk með lítil eða engin einkenni og er þar með að greinast í þessum rútínuprófum áður en þau fara úr landi. Þau komast þar af leiðandi ekki úr landi, af því að þau eru jákvæð og þurfa þá að dúsa hér í einangrun.“

Smita minna úr frá sér en aðrir

Þórólfur segist ekki hafa miklar áhyggjur, en auðvitað viti maður ekki almennilega hvernig bólusettir dreifi veirunni.

„Það eru rannsóknir erlendis frá sem sýna að bólusettir sem taka veiruna smita miklu minna út frá sér en aðrir. En það verður eiginlega bara að koma í ljós. Það mun því reyna á þetta ónæmi í samfélaginu hér hvernig það verður. Þess vegna þurfum við áfram að hvetja fólk með einkenni að fara í sýnatökur. Það er mjög mikilvægt.“

Minnir á rakningaappið

Þórólfur segir erfitt að fastsetja hverja þessir fimm einstaklingar útsettu á ferðalagi sínu á Íslandi. 

„Einmitt á þeim grunni verðum við að hvetja alla til að nota rakningarappið þannig að hægt sé að nýta það. Það er mikilvægara nú en nokkru sinni áður að fólk sé með rakningarappið í gangi þannig að hægt sé að leggja mat á það hverja fólk hefur útsett og hverjir hafa verið nálægt þannig að hægt sé að rekja það betur, sérstaklega þegar fólk fer að koma saman í meira mæli en áður. Annars gætum við þurft að setja mjög marga í sóttkví og það gerir rakninguna erfiðari.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×