Innlent

„Menn eru búnir að reyna þetta mjög lengi“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og Þjóðbjörg Eiríksdóttir vísindamaður hjá Íslenskri erfðagreiningu eru meðal höfunda rannsóknarinnar.
Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og Þjóðbjörg Eiríksdóttir vísindamaður hjá Íslenskri erfðagreiningu eru meðal höfunda rannsóknarinnar. Íslensk erfðagreining

Líkan Íslenskrar erfðagreiningar, sem spáir fyrir um það hversu langt fólk á eftir ólifað, er nákvæmara en öll önnur sambærileg líkön, að sögn forstjóra. Líkanið hafi þó talsvert meira forspárgildi hjá þeim eldri en yngri.

Greint var frá niðurstöðum rannsóknarinnar í kvöldfréttum Stöðvar 2 í byrjun mánaðar en líkanið birtist í vísindaritinu Communications Biology í dag. Með líkaninu, sem styðst við mælingu á próteini í blóði, fundust til dæmis þau 5 prósent úr hópi þátttakenda á aldrinum 60 til 80 ára, sem voru með um 90 prósent líkur á því að deyja innan 10 ára.

„Menn eru búnir að reyna þetta mjög lengi, það sem líkanið hennar Þjóðbjargar [Eiríksdóttur, eins höfundar rannsóknarinnar] hefur umfram önnur líkön er að þetta er nákvæmara og þetta hefur meira forspárgildi en annað sem menn hafa reynt,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

Þá gangi rannsóknin út á að finna það sem einkenni hóp af fólki, ekki einstaklinga.

„Þetta hefur að öllum líkindum miklu meira forspárgildi hjá þeim sem eru eldri, það er að segja að ef þú ferð niður í yngri aldurshópa þá eru allflestir, guði sé lof, svo heilbrigðir að við erum ekki farin að sjá þess merki að það sé farið að flæða undan þeim.“

Einhver bið verði þó á því að líkanið komist í notkun í klínískri þjónustu.

„Þá er hugmyndin sú að það geti gefið fólki tækifæri til að breyta um lífsstíl eða breyta því hvernig þeir sjúkdómar eru meðhöndlaðir sem kunna að leiða til dauða.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.