Milwaukee vann sannfærandi 15 stiga sigur í nótt, 104-89. Í raun var alltaf ljóst að Bucks myndi landa sigri en liðið byrjaði vel og lét forystuna aldrei af hendi. Nets voru án Kyrie Irving annan leikinn í röð og James Harden gerði hvað hann gat en það er ljóst að hann er ekki heill heilsu.
Giannis fór að venju mikinn í liði Bucks en hann var gagnrýndur fyrir að keyra ekki nóg á tæpan Harden í síðasta leik liðanna. Gríska undrið skilaði 30 stigum og 17 fráköstum í leiknum en Khris Middleton stal senunni, hann skoraði 38 stig ásamt því að taka 10 fráköst, gefa 5 stoðsendingar og stela boltanum fimm sinnum.
Jrue Holiday kom þar á eftir með 21 stig, 8 fráköst, 5 stoðsendingar og 4 stolna bolta.
Brooklyn geta huggað sig við það að vera með heimavallarrétt en allir sex leikir liðanna til þessa hafa unnist á heimavelli. Nets eru því með smá forskot fyrir oddaleik liðanna sem fram fer á laugardagskvöld.
Hjá Nets var Kevin Durant með „aðeins“ 32 stig og 11 fráköst en hann skoraði 49 stig er Nets komst 3-2 yfir í einvíginu. Þá lék hann allar 48 mínútur leiksins en í nótt spilaði hann 40 mínútur líkt og James Harden. Sá síðarnefndi skilaði 16 stigum, 7 stoðsendingum og 5 fráköstum.

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.