Körfubolti

Barcelona spænskur meistari

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Barcelona tryggði sér í kvöld spænska meistaratitilinn. Eitthvað sem liðinu hefur ekki tekist síðan 2014.
Barcelona tryggði sér í kvöld spænska meistaratitilinn. Eitthvað sem liðinu hefur ekki tekist síðan 2014. Quality Sport Images/Getty Images

Barcelona varð í kvöld spænskur meistari í körfubolta eftir að leggja Real Madrid að velli í öðrum leik úrslitaeinvígisins. Barcelona vann báða leikina örugglega og eru því verðskuldaðir meistarar.

Fjórtán stiga sigur Börsunga í fyrri viðureign liðanna, 89-75, gaf góð fyrirheit fyrir síðari leikinn sem fram fór í kvöld. Þar gerðu þeir gott betur og unnu öruggan 19 stiga sigur, lokatölur 92-73.

Leikur kvöldsins var í raun aldrei spennandi, Börsngar höfðu yfirhöndina frá fyrsta leikhluta og varð munurinn einfaldlega meira og meiri eftir því sem leið á fyrri hálfleik. Það munaði 11 stigum á liðunum að loknum fyrsta fjórðung og 18 stigum þegar loks var flautað til hálfleiks.

Í síðari hálfleik var það sama upp á teningnum framan af og tókst Real ekki að klóra í bakkann fyrr en það var orðið alltof seint. Í fjórða leikhluta var ljóst að Börsungar væru að fara klára dæmið og fjaraði undan leik beggja liða. Lokatölur 92-73 er flautan gall og fagnaðarlætin gátu hafist.

Nikola Mirotic var stigaæstur í liði Barcelona með 27 stig. Þar á eftir kom Nick Calathes með 15 stig og 7 stoðsendingar á meðan gamla brýnið Pau Gasol skilaði 11 stigum og sex fráköstum.

Hjá Real var Alberto Abalde stigahæstur með 15 stig.


Spænski körfuboltinn, ACB, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. ACB er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×