Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Þór Þ. 78-58 | Oddaleikur á laugardag

Árni Jóhannsson skrifar
Stjörnumenn voru ansi öflugir í kvöld.
Stjörnumenn voru ansi öflugir í kvöld. vísir/bára

Stjarnan tryggði sér oddaleik í undanúrslitaeinvígnu gegn Þór Þorlákshöfn í Ásgarði í kvöld. Leikurinn einkenndist af hörðum varnarleik og þar voru heimamenn ofan á en leikar enduðu 78-58 Stjörnunni í vil. Oddaleikurinn fer fram á laugardag.

Það var tilfinning manna í blaðamannastúkunni að Þórsarar væru í dauðafæri á því að ljúka einvíginu í kvöld en til þess þá þurftu þeir að halda hittni sinni í einhverri líkingu við síðasta leik og ekki leyfa Stjörnunni að komast upp með að spila sinn leik. Sú varð ekki raunin.

Leikurinn einkenndist af hörðum varnarleik frá fyrstu mínútu og skotin vildu ekki rata niður hjá hvorugu liði. Stigaskorið var lítið en það virtist vera að Þór Þ. væri með völdin í leiknum en þeir fóru inn í hléið á milli fjórðunga með þriggja stiga forystu 16-19. Stjörnumenn voru sáttir líklega við að vera svona stutt frá Þór Þ. en það mátti lítið út af bregða til að þeir misstu öll tökin á þessum leik.

Í öðrum fjórðung tóku Stjörnumenn betur við sér en þeir spiluðu mjög harða vörn og neyddu leikmenn Þórs í að erfið skot og náðu oft að stoppa Þór í sínum aðgerðum. Þeim gekk hinsvegar bölvanlega að nýta sér það í sóknarleiknum og því voru þeir ekki með nema tveggja stiga forskot þegar gengið var til búningsherbergja í stöðunni 36-34. Stjörnumönnum gekk vel að skora eftir sóknarfráköst og halda gestunum í lágri prósentu úr þriggja stiga skotum.

Varnarleikur Stjörnunnar var frábær og þar var Ægir einna fremstur í flokki.vísir/bára

Þriðji leikhluti einkenndist af sömu hörku og því að Stjörnumenn náðu ekki að slíta sig nógu mikið frá gestunum til að líða vel með sjálfan sig. Þegar sjö mínútur voru liðnar af fjórðungnum þá var jafnt í stöðunni 45-45 en þá skildu leiðir. Stjörnumenn lokuðu fjórðungnum mjög sterkt og leiddur með sex stigum að honum loknum 56-50.

Fjórði leikhluti byrjaði af miklum krafti hjá Stjörnumönnum á meðan gestirnir hefðu ekki getað keypt sér körfu með því að yfirbjóða verðið á þeim. Eftir tvær mínútur í fjórða leikhluta var munurinn orðinn níu stig og nöglunum fjölgaði í kistu gestanna. Gunnar Ólafss. kom vel inn í lokaleikhlutann og setti niður nokkrar mikilvægar körfur til að auka mun sinna manna upp fyrir tíu stigin og þegar um þrjár mínútur lifðu af leiknum var lokanaglinn rekinn þegar Tómar Þór skoraði þriggja stiga körfu úr horninu þegar skotklukkan rann út. Þá varð munurinn 16 stig, 69-53, og skömmu síðar tæmdu liðin bekkina sína og Stjarnan sigldi sigrinum heim. Lokastaðan 78-58 og við fáum oddaleik á laugardaginn kemur.

Afhverju vann Stjarnan?

Körfubolti snýst oft um það að liðin nái að spila sinn leik til að ná í sigurinn. Í kvöld náði Stjarnan að setja sitt mark á leikinn og um leið koma í veg fyrir að Þór frá Þorlákshöfn næði að spila sinn leik og hitta eins vel og þeir gerðu í leik númer þrjú. Það gerðu þeir með því að spila af festu og grimman varnarleik.

Bestir á vellinum?

Frammistaða heimamanna var nokkuð jöfn heilt yfir en þegar Lindqvist, Ægir og Gunnar Ólafsson komust í góðan takt þá náðu heimamenn að stinga af í þriðja leikhluta. Þeir deila með sér því að vera bestir á vellinum ásamt því að AJ Brodeaur gerði mjög vel í því að skora í teig andstæðinganna í kvöld.

Hvað gekk illa?

Eins vel og heimamönnum gekk í að fá framlag frá sínum mönnum þá voru Þórsarar heillum horfnir. Callum Lawson og Adomas Drungilas skoruðu ekki nema 15 stig samtals og rulluspilararnir Emil Karel og DAvíð Arnar Ágústson gerðu nánast ekkert sóknarlega. Því fór sem fór en liðið sem hefur verið að skora nálægt 100 stigum að meðaltali í allan vetur var algjörlega með allt niðrum sig sóknarlega í kvöld.

Tölfræði sem vakti athygli?

Stjarnan vann þriðja leikhlutann. Eins og var fjallað um á Vísi í dag þá hefur gengið herfilega hjá Stjörnumönnum í þriðja leikhluta en í kvöld unnu þeir hann 20-16 og gerðu svo betur í þeim fjórða og unnu hann 22-8.

Hvað næst?

Hvað næst spyrjið þið. Það er oddaleikur á laugardaginn. Stjörnumenn þurfa að finna leið til þess að spila annan svona leik á meðan Þórsarar eru væntanlega að reyna að hugsa upp lausnir á varnarleik andstæðingsins. Þetta verður spennandi. Það er víst.

Hlynur var baráttuglaður, sem fyrr í kvöld.vísir/bára

Hlynur: Við þurfum bara að gera meira af því sama og við gerðum í kvöld

Hlynur Bæringsson var á því að varnarleikurinn hafi skapað sigur sinna manna í kvöld þegar hann var spurður að því hvað hans menn hefðu gert rétt þegar Stjarnan lagði Þór Þ. 

„Við spiluðum betri vörn og náðum að stjórna þeim aðeins betur fannst mér.“

Hlynur var svo spurður að því hvað hafi skapað þennan betri varnarleik, hvort það hafi verið hugarfar eða eitthvað annað munandi það að tapið í Þorlákshöfn um helgina var ekki fallegt.

„Hugarfarið hefur alltaf verið gott hjá okkur. Það hefur aldrei verið vandamálið hjá þessu liði. Við vildum reyna að hlaupa þá eins mikið og við gátum af þriggja stiga línunni. Þeir fengu ekki mikið af góðum skotum í kvöld enda skoruðu þeir mun minna. Þeir eru mjög góðir í „transition“ og það var mikilvægast að koma í veg fyrir þessa hluti.“

Hlynur var spurður að því hvað hans menn þyrftu að hafa í huga fyrir oddaleikinn á laugardaginn. Þá fara þeir í mikla gryfju í Þorlákshöfn og það gæti reynst erfitt.

„Við þurfum bara að gera meira af því sama og við gerðum í kvöld. Taka þennan leik með okkur, koma í veg fyrir skotin þeirra fyrir utan eins vel og við mögulega getum. Þeir eru enn betri í þessu á heimavelli og ef maður gleymir sér þá skjóta þeir 60% úr þriggja stiga eins og þeir gerðu um daginn úr skotum sem voru ekki auðveld. Við verðum að virða þennan eiginleika hjá þeim. Þannig að planið er að reyna að hægja á þeim og taka fimmta leikinn. Ég held að við tökum þennan fimmta leik.“

Styrmir: Við verðum bara að rífa okkur upp af rassgatinu

Ungstirnið Styrmir Snær Þrastarson var einn af fáum sem spiluðu af eðlilegri getu hjá Þórsurum í kvöld. Hann var spurður að því hvað hans menn hefðu þurft að gera betur til að vinna leikinn í kvöld.

„Við hefðum þurft að sýna aðeins meiri hörku. Þeir komu út í þennan leik og lömdu á okkur og við lömdum ekki til baka og svo hittum við ekki neitt í sókninni. Ég held að við hefðum þurft að fara aðeins meira á hringinn. Við vorum að taka aðeins of mörg þriggja stiga skot en það er bara næsti leikur og áfram gakk.“

Það var mögulega eilítil pressa á Þór frá Þorlákshöfn í kvöld að klára einvígið í kvöld og var Styrmir spurður að því hvort að tilefnið hafi farið eitthvað öfugt í hans menn.

„Ég veit það ekki. Þetta gekk bara ekki í kvöld. Við komum ekki með nógu mikla hörku í kvöld og það er bara eitthvað í hausnum á mönnum. Við þurfum bara að mæta af hörku í næsta leik. Við verðum bara að rífa okkur upp af rassgatinu hver og einn og fara að spila sem lið og það er það sem við ætlum að gera á laugardaginn.“

Lárus var svekktur með niðurstöðuna.vísir/bára

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira