Erlent

Vildi gefa heimilislausum og bótaþegum lager af ónýtum grímum

Snorri Másson skrifar
Spjótin standa á Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýskalands.
Spjótin standa á Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýskalands. Getty/Kay Nietfeld

Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýskalands, er í vandræðum eftir að hann pantaði í upphafi kórónuveirufaraldursins milljónir sóttvarnagríma frá asískum framleiðendum, sem reyndust ónothæfar þegar til kastanna kom.

Vegna þessa varð ríkissjóður landsins af verulegum fjárhæðum að nauðsynjalausu, en Jens Spahn hefur legið undir linnulausri gagnrýni undanfarið af annarri ástæðu.

SPIEGEL sagði nefnilega frá því í síðustu viku að ráðuneyti Spahn hefði haft áform um að losa sig við ónýtu grímurnar með því að gefa þær heimilislausu fólki, fötluðu fólki og fólki á atvinnuleysisbótum.

Það var atvinnumálaráðuneytið sem setti sig upp á móti þessum áformum heilbrigðisráðuneytisins um að nýta grímurnar í þessa hópa. Því voru þær færðar á lager í staðinn og verður að lokum fargað.

Jens Spahn, kristilegur demókrati sem þar til fyrir skemmstu taldist einn ástsælasti stjórnmálamaður Þýskalands, hefur ekki átt sjö dagana sæla síðan þetta komst upp. Fulltrúar jafnaðarmanna, samstarfsflokks Spahn í ríkisstjórn, hafa krafist þess að hann segi af sér og verulegur titringur er kominn í samstarfið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×