Innlent

„Við höfum aldrei lent í svona alvarlegri undirmönnun áður“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Bergur Stefánsson er formaður Félags bráðalækna.
Bergur Stefánsson er formaður Félags bráðalækna. Samsett

Aldrei hefur verið alvarlegri undirmönnun á bráðadeild Landspítala í Fossvogi og stefnir í að verði í sumar, að sögn formanns félags bráðalækna. Yfirgnæfandi líkur séu á alvarlegum atvikum og jafnvel mannslátum á deildinni. Stjórnendur spítalans og ríkisstjórnin beri ábyrgð á því.

Félag bráðalækna sendi frá sér harðorða yfirlýsingu um stöðuna á bráðadeildinni í morgun en yfirlýsingin var samþykkt á aðalfundi félagsins í gær. Bergur Stefánsson formaður Félags bráðalækna segir að krafa félagsins sé fyrst og fremst að lágmarksmönnun á deildinni sé virt. Nú þegar náist ekki skilgreind neyðarmönnun bráðalækna eins og gert sé ráð fyrir í verkfalli, það er sjö vaktalínur svokallaðar.

„Ef það eru aðeins fimm vaktir sérfræðinga sem eru á bráðamóttöku er ekki hægt að tryggja öryggi sjúklinga og ef þú getur ekki tryggt það þá ertu að leggja líf þeirra í hættu,“ segir Bergur.

Hann kveðst alls ekki viss um að þurfi aukið fjármagn til að bregðast við vandanum. Hann telji að áherslur hjá framkvæmdastjórn spítalans þurfi að vera skýrari.

„Við höfum aldrei lent í svona alvarlegri undirmönnun áður, undanfarin sumur hefur gengið skár, það hefur komið fyrir að við höfum farið nokkra daga undir neyðarmönnun en þessi staða með fjölda sérfræðilækna í bráðalækningum hefur verið ljós alveg frá áramótum og ítrekað verið bent á hana.“

Bergur segir að félagið hafa lagt fram tillögur til framkvæmdastjórnar, sem að hans vitund hafi ekki verið teknar til umfjöllunar í stjórninni. Þá segir hann að Landlæknir hafi ítrekað fjallað um stöðuna á spítalanum og bráðamóttökunni frá árinu 2018.

„Í mínum augum eru þetta mjög harðar athugasemdir sem landlæknir hefur gefið út að undanförnum árum. Því miður er staðan ekki betri en svo aðekki hefur tekist að framfylgja ábendingum landlæknis.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.