Sport

Fær meira fyrir að boxa við YouTube-stjörnu en fyrir alla UFC-bardagana

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
UFC lét Tyron Woodley fara og hann ætlar nú að reyna fyrir sér í boxi.
UFC lét Tyron Woodley fara og hann ætlar nú að reyna fyrir sér í boxi. getty/Jeff Bottari

Tyron Woodley fær hærri upphæð fyrir að mæta YouTube-stjörnunni Jake Paul í boxbardaga en fyrir alla bardaga sína í UFC.

Woodley þreytir frumraun sína í hnefaleikum gegn Paul 28. ágúst næstkomandi. Paul hefur unnið alla þrjá bardaga sína á ferlinum með rothöggi.

Hinn 39 ára Woodley er fyrrverandi heimsmeistari í veltivigt í UFC. Hann varði titil sinn alls fimm sinnum og fékk um fimm hundruð þúsund Bandaríkjadali fyrir hverja titilvörn.

Woodley hefur hins vegar aldrei fengið jafn mikið greitt á ferlinum og hann fær fyrir bardagann gegn Paul. Talið er að hann fái rúmlega milljón Bandaríkjadala en það er í fyrsta sinn sem hann fær sjö stafa upphæð fyrir bardaga.

„Hann fær mjög vel borgað. Þetta er einn besti samningur sem við höfum gert. Fyrir mann í hans stöðu er þetta stórkostlegur samningur,“ sagði umboðsmaður Woodleys.

UFC lét hann fara eftir að hafa tapað síðustu fjórum bardögum sínum, síðast gegn Vicente Luque í lok mars. Woodley hefur unnið nítján af 27 bardögum sínum á ferlinum.

Paul sigraði fyrrverandi æfingafélaga Woodleys, Ben Askren, í apríl. Fyrir bardagann lenti þeim Paul og Woodley saman. Þeir mætast nú aftur og á aðeins formlegri hátt í hringnum 28. ágúst.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.