Körfubolti

„Rusla­konan“ Ásta Júlía fékk mikið hrós í Domino´s Körfu­bolta­kvöldi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ásta Júlía Grímsdóttir var frábær á móti Fjölni í gær og þurfti bara átján mínútur til að skora átján stig.
Ásta Júlía Grímsdóttir var frábær á móti Fjölni í gær og þurfti bara átján mínútur til að skora átján stig. Vísir/Bára

Ásta Júlía Grímsdóttir átti mjög flottan leik þegar Valskonur komust í 2-0 á móti Fjölni í undanúrslitum Domino´s deildar kvenna en frammistaða hennar var tekin sérstaklega fyrir í Domino´s Körfuboltakvöldi eftir leikinn.

Ásta Júlía skoraði 18 stig á 18 mínútum en hún hitti úr sjö af átta skotum sínum og tók auk þess sex fráköst. Ekki slæmt fyrir Valsliðið að fá svona frammistöðu af bekknum.

„Það þurfti ekki að gíra þessa stúlku upp í neitt. Hversu geggjuð var Ásta Júlía í kvöld,“ spurði Pálína Gunnlaugsdóttir, umsjónarkona Domino´s Körfuboltakvöld og beindi spurningu sinni til Berglindar Gunnarsdóttur.

„Ásta Júlía er heilt yfir búin að vera svo góð í vetur og ég er svo ótrúlega hrifin af þessum leikmanni. Hún er algjör ruslakona ef ég má segja það og hún vinnur ótrúlega vel. Hún hreyfir sig svo vel eftir hindranir,“ sagði Berglind.

Ásta Júlía kom aftur í Val í vetur eftir að hafa verið við nám í Bandaríkjunum. Hún er aðeins tvítug og á því framtíðina fyrir sér.  Stelpurnar fóru líka yfir það hvernig Ásta Júlía nær að opna sig svona vel með því að halda hindrunum sínum svo lengi.

„Hún er ekki bara ruslakarl því hún er þolinmóð, ógeðslega dugleg og svo er hún bara klár að klára færin sín,“ sagði Pálína.

„Ásta Júlía var best í kvöld en Ásta Júlía þarf ekki alltaf að vera best í Val til að Valsliðið vinni. Í næsta leik gæti það verið Haddý,“ sagði Ragna Margrét Brynjarsdóttir.

„Ásta Júlía kemur inn af bekknum og er stigahæst. Það segir okkur svo mikið um breiddina í þessu liði,“ sagði Berglind.

„Vopnabúrið er svo ótrúlega stórt hjá þeim. Það getur verið Helena einn leikinn og Ásta Júlía í þeim næsta eða Kiana. Þær þurfa ekki allar að eiga stórleik. Það er það sem gerir þetta lið svo geggjað,“ sagði Ragna Margrét.

Hér fyrir neðan má sjá umfjöllunina um Ástu Júlíu og Valsliðið í þættinum í gær.

Klippa: Dominos Körfuboltakvöld: Ásta Júlía með frábæra innkomuFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.