Umfjöllun, viðtöl og myndir: Valur - KR 98-99 | KR hafði betur í framlengdum spennutrylli

Árni Jóhannsson skrifar
Ty Sabin var hetja KR-inga í kvöld.
Ty Sabin var hetja KR-inga í kvöld. Vísir/Bára

Sú viðureign sem var hvað mest beðið eftir í 8-liða úrslitum Domino´s deildar karla var viðureign KR og Vals. Hún olli ekki vonbrigðum en KR vann fyrsta leik með eins stigs mun eftir framlengdan háspennu leik, lokatölur að Hlíðarenda 99-98 Íslandsmeisturunum í vil.

Bæði lið virtust einbeita sér að því að ná upp sóknarleiknum sínum en þeim gekk mjög illa að stöðva hvort annað og úr varð kapphlaup um að skora stigin. Mesti munurinn á liðunum í fyrsta leihluta var fimm stig en Valur náði þeim mun í enda hans. 

Liðin virtust herma eftir öllum aðgerðum andstæðingsins þannig að þegar eitt liðið stoppaði sókn hins liðsins var sama hending á hinum enda vallarins. Því var ekki hægt að slíta sig frá hinu liðinu. Staðan eftir fyrsta leikhluta 23-21 fyrir heimamenn.

Kristófer Acox, fyrrum leikmaður KR, átti góðan leik í liði Vals í kvöld.Vísir/Bára

Í öðrum leikhluta skiptust liðin á körfum framan af en þegar um fjórar mínútur voru búnar komst KR á góðan skrið þar sem vörn og sókn tengdust og náðu að opna sex stiga forskot 29-35 en það dugði skammt því Valsmenn voru strax komnir aftur alveg upp við þá en komust ekki yfir hjallinn og KR hélt forskotinu út hálfleikinn en það var ekki nema eitt stig, 49-50.

Þriðji leikhluti var hnífjafn og var skipst á hverri einustu körfu nánast. Fjórðungurinn endaði 21-21 og KR því enn með eins stiga forskot þegar þriðja leikhluta var lokið. 

Jakob í leik kvöldsins.Vísir/Bára

Aftur var sama sagan í lokaleikhlutanum og var munurinn mestur á liðunum þrjú stig. Þegar um mínúta var eftir af venjulegum leiktíma náði Valur flugi eftir að hafa jafnað leikinn og komust þeir í einmitt þriggja stig forskot 87-84.

Tyler Sabin klikkaði á skoti þegar 40 sekúndur voru eftir en bætti heldur betur fyrir það með því að stela boltanum, koma honum á Jakob Sigurðarson sem dúndraði niður þriggja stiga körfu og jafna metin. Valsmenn náðu ekki að skora í lokasókn sinni og framlengja þurfti leikinn. 

Jón Arnór Stefánsson, fyrrum leikmaður KR, gat tryggt Val sigurinn en skot hans geigaði.Vísir/Bára

Þar gerðist nánast það sama og í fjórða leikhluta. KR hafði litla forystu en þegar um mínúta var eftir jöfnuðu heimamenn metin og komust síðan yfir þegar stutt var eftir. Þá var staða 98-96 og Sabin með boltann í höndunum þegar 20 sekúndur voru eftir. 

Hjálmar Stefánsson var settur honum til höfuðs en það skipti engu máli því Sabina sendi boltann rakleiðis ofan í með hönd alveg í andlitinu á sér. Valur hafði fimm sekúndur til að aðhafast og eftir að Jordan Rowland hafði dripplað og opnað færi fyrir Pavel þá klikkaði skot hans og tíminn rann út. KR sigurvegarar í þessum leik með minnsta mun 98-99 og draumaeinvígið fer af stað eins og í draumi.

Matthías Orri fagnar með Ty Sabin.Vísir/Bára

Afhverju vann KR?

Í leik sem þessum þá skiptir það máli að setja körfur á réttum tímapunktum. Valsmenn t.a.m. klikkuðu á vítum bæði í framlengingu og venjulegum leiktíma sem hefðu getað orðið til þess að þeir skoruðu nógu mörg stig til að vinna leikinn. 

KR skoraði mikilvægu körfurnar á mikilvægu augnablikunum og því standa þeir uppi sem sigurvegarar. Ætli þeir séu ekki sáttari líka við að leikurinn þróaðist í þennan skotbardaga eins og úr varð en Valsmenn hafa einkennt sinn leik af því að spila góða vörn. Það tókst ekki sem skildi í kvöld.

Miðjan mætti á Hlíðarenda í kvöld.Vísir/Bára

Bestir á vellinum?

Tyler Sabin var besti maður vallarins en hann skoraði 28 stig og gaf sex stoðsendingar. Hann tryggði liðinu bæði framlengingu og sigurinn. Hann stal boltanum og gaf stoðsendinguna sem varð til þess að Jakob jafnaði metin og svo skoraði hann síðustu körfu leiksins. 

Hjá Val var það Kristófer Acox sem stóð upp úr með 20 stig, 11 fráköst og tvö varin skot.

Tölfræði sem vakti athygli?

Það þarf kannski ekki að fjölyrða um það hversu spennandi þessi leikur var. Það sáu allir eða lásu. Tölfræðin hinsvegar bakkar það upp. Liðin skiptust á að hafa forystu 22 sinnum og 13 sinnum var jafnt á öllum tölum. 

Hvað næst?

Við hefjum leik aftur á miðvikudag og þá í Vesturbæ Reykjavíkur. Liðin hafa því tvo daga til að koma sér í stand aftur líkamlega og andlega ásamt því að skoða þennan leik og bera kennsl á það hvað má betur fara.

Smáatriðin sem fara með leikinn

Hjálmar í baráttunni í kvöld.Vísir/Bára

Hjálmar Stefánsson átti góðan leik á báðum endum vallarins í kvöld en var skilja svekktur með úrslit leiksins. Hann var spurður hvað hafi klikkað hjá sínum mönnum.

„Þetta voru bara smáatriðin. Við vitum alveg hvað þeir vilja gera en eitt, tvö eða þrjú klikk sem fara með leikinn í raun og veru. Við verðum bara að koma í næsta leik og gera betur en þetta.“

Hjálmar var spurður að því hvort hans menn hefðu lært eitthvað um KR sem þeir vissu ekki fyrir fram. 

„Við vitum alveg hvað við eigum að gera en þetta voru bara þessir tveir þrír hlutir hjá okkur sem eyðilögðu þetta fyrir okkur í kvöld.“

Jordan Roland var í strangri gæslu í kvöld. Hjálmar er viss um það að í Valsliðinu séu leikmenn sem geta tekið upp slakann sem Jordan skilur eftir sig þegar hann fær ekki að leika lausum hala.

Jordan hefur verið frábær í liði Vals á leiktíðinni.Vísir/Bára

„Við finnum svo sem ekki fyrir auka pressu að skora. Ég veit ekki hversu marga menn við erum með sem geta skorað yfir 20 stig í leik. Jordan var að opna fyrir okkur, hann skoraði samt 17 stig. Við erum með rosalega mörg vopn í vopnabúrinu okkar.“

Þegar spurt var um hvað væri hugsað um á milli leikja var Hjálmar stuttorður: „Passa upp á mataræðið og sofa vel.“


Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira