Innlent

Íslendingar eiga heimtingu á einu verðmætasta frímerkta skjali heims

Snorri Másson skrifar
Biblíubréfið var upphaflega sent íslenskum sýslumanni árið 1874. Það var selt árið 1973 fyrir háa upphæð og hefur síðan gengið kaupum og sölum og þykir vera eitt verðmætasta frímerkta skjal í heimi.
Biblíubréfið var upphaflega sent íslenskum sýslumanni árið 1874. Það var selt árið 1973 fyrir háa upphæð og hefur síðan gengið kaupum og sölum og þykir vera eitt verðmætasta frímerkta skjal í heimi. Þjóðskjalasafnið

Biblíubréfið, eitt verðmætasta frímerkta skjal í heimi, er í raun í eigu íslenska ríkisins, að mati Þjóðskjalasafns Íslands.

Eins og stendur er það þó í einka­safni sænska greif­ans og frí­merkja­safn­ar­ans Douglas Storcken­feldt. Það var selt úr landi 1973.

Þjóðskjalasafnið hefur bent menningar- og menntamálaráðherra á að samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn eigi skjalasöfn tilkall til þess að fá skjölin afhent.

Þetta tilkall fellur ekki niður fyrir tómlæti og hefð, segir í lögunum.

Könnuðu málið vegna heimildarmyndar

Biblíubréfið var sent sýslumanni Árnessýslu árið 1874 er frá 1874 og var síðan varðveitt í safni hans. Á því eru ein­stök þjón­ustu­frí­merki, bæði í ís­lenskri og nor­rænni frí­merkja­sögu. Þjónustufrímerkin eru 23.

Bréf landfógeta 30. september 1874.Þjóðskjalasafnið

Mat Þjóðskjalasafnsins er að bréfið hafi verið fjarlægt úr safni hans og ratað síðan til einkaaðila. Nú sendir safnið frá sér sérstaka tilkynningu þar sem ráðherra er minntur á að bréfið sé eign íslenska ríkisins. Það geti krafist þess að fá það aftur.

Í heimildarmyndinni Leyndarmálið sem sýnd var í Ríkissjónvarpinu 7. apríl sl. er fjallað um Biblíubréfið. Í kjölfar sýningar á myndinni athuguðu sérfræðingar Þjóðskjalasafns Íslands málið og telja nú víst að það komi úr safni sýslumanns.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menntamálaráðherra hefur ekki brugðist við tilkynningu safnsins, en þessa dagana fer fram vinna í ráðuneyti hennar sem lýtur meðal annars að því að kanna hvort koma megi fleiri íslenskum miðaldahandritum til Íslands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×