Árið 2019 komu skjólstæðingar Heimilisfriðar í um fjörutíu viðtöl á mánuði, samkvæmt tölum frá úrræðinu. Aðsókn jókst í kórónuveirufaraldrinum en fyrri hluta árs 2020 var fjöldi viðtala kominn upp í sextíu í mánuði. Nú, í maí 2021, eru viðtölin orðin hundrað í mánuði - og fjöldi viðtala því nær þrefaldast á tæpum tveimur árum. Um tvö til fjögur mál koma nú inn á borð Heimilisfriðar í hverri viku og ný mál á ári orðin um hundrað og fimmtíu.
Sálfræðingur hjá Heimilisfriði segir að MeToo-bylgjan sem hófst í síðustu viku hafi einkum hjálpað við meðferð þeirra skjólstæðinga sem þegar sækja hjálp til úrræðisins. Síðustu mánuði hafi málin mikið til snúið að líkamlegu ofbeldi.
„En fólk er líka að átta sig á andlegu ofbeldi, fjárhagslegu og kynferðislegu. Við erum að sjá allt. Þetta er aukin vakning í öllum tegundum sýnist okkur,“ segir Mjöll Jónsdóttir, sálfræðingur hjá Heimilisfriði.
Gerendur sem leita til Heimilisfriðar eru langflestir karlar - og allt að níutíu prósent gerenda eru sjálfir þolendur ofbeldis.
„Það eru öll kyn, allur aldur, í öllum stéttum samfélagsins. Og það er eiginlega ekkert sem einkennir [gerendur ]annað heldur en að þeir hafa beitt ofbeldi og flestir upplifað hörmungar í eigin lífi líka,“ segir Mjöll.
Búist þið við því þegar lengra líður frá þessari MeToo-bylgu, að fólk leiti sér hjálpar í auknum mæli?
„Ég vona það. Ég ætla svo sannarlega að vona að umræðan skili því að fólk leiti sér hjálpar.“