Skoðun

Ó­jafn leikur: TR gegn ein­stak­lingi

Viðar Eggertsson skrifar

Tryggingastofnun ríkisins er ekki að gera gott mót – enn einu sinni. Henni var í upphafi ætlað að vera þjónustustofnun sem fólk setti traust sitt á. Nú stendur hún uppi rúin trausti þess fólks sem þarf að reiða sig á skilvirka og vinsamlega afgreiðslu þeirra réttinda sem fólk hefur áunnið sér eftir langa baráttu fyrir réttindum þeirra sem hallari fæti standa, eldri borgurum og öryrkjum.

Nýlega felldi Umboðsmaður Alþingis áfellisdóm yfir stjórnsýslu TR og Úrskuðarnefndar velferðarmála og það ekki í fyrsta sinn. En fæst mál ná alla leið til umboðsmanns. Það er fyrst og fremst vegna þess að þeir sem vilja fá mál sín tekin fyrir þurfa annað hvort að búa yfir lögfræðiþekkingu sjálfir eða hafa efni á að kaupa hana fullu verði.

Einstaklingurinn er settur í erfiða stöðu og nánast óviðráðanlega við að leita réttar síns ef hann sér að TR er að skerða réttindi hans að ósekju. Þá er úrræðið að skjóta máli sínu til Úrskurðarnefndar velferðarmála. Nefndin er skipuð lögfræðingum sem fá greidd laun sín úr ríkissjóði til að fella sína úrskurði. Þeir kalla eftir rökstuðningi TR sem fær einn af fjölmörgu lögfræðingum sínum sem fá laun úr ríkissjóði til að rökstyðja óásættanlegu ákvörðunina. Sá sem hefur skotið máli sínu til úrskurðarnefndarinnar, öryrkinn eða eldri borgarinn, fær enga slíka þjónustu, lögfræðinga frá ríkinu til að rökstyðja sitt mál og fæstir hafa efni á að greiða slíka þjónustu úr eigin vasa.

Hann stendur því einn á berangri gegn her lögfræðinga ríkisins sem verjast af fimi mótbárum þess veika og smáða. Það er ekki nema þeir alhörðustu sem ganga svo langt að ráða sér lögfræðing.

Enda hefur Úrskuðarnefnd velferðarmála sára sjaldan kveðið upp úrskurð sem hallar á TR.

Nú hefur Umboðsmaður Alþingis rassskellt bæði úrskurðarnefndin og TR. Málið náði eingöngu svo langt af því málshefjandi kostaði sjálfur úr eigin vasa sérfræðiaðstoð lögfræðings frá kæru til TR, þaðan til úrskurðarnefnda og loks þaðan til umboðsmanns.

Fyrst TR er fyrirmunað að líta á sig sem raunverulega þjónustumiðstöð, heldur varðhund sem glefsar í útréttar hendur og fyrst Úrskurðarnefnd velferðarmála lítur á sig sem framlengingu á kúgunarvaldi TR, þá er bara eitt í stöðunni: Ríkið á að gæta jafnræðis deiluaðila og tryggja þeim fría lögfræðiaðstoð sem þurfa að leita réttar síns vegna afgreiðslu TR og til að reka mál sitt fyrir Úrskurðarnefnd velferðarmála – strax!

Höfundur er leikstjóri og eldri borgari og frambjóðandi Samfylkingarinnar í 3ja sæti í Reykjavík suður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×