Körfubolti

Ná Keflvíkingar að vinna öll hin ellefu liðin í einni halarófu?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hörður Axel Vilhjálmsson og félagar geta unnið ellefta deildarsigur sinn í röð í kvöld.
Hörður Axel Vilhjálmsson og félagar geta unnið ellefta deildarsigur sinn í röð í kvöld. Vísir/Vilhelm

Deildarmeistarar Keflavíkur taka í kvöld á móti Val í næstsíðustu umferð Domino´s deildar karla. Keflvíkingar hafa að litlu að keppa en sömu sögu er ekki hægt að segja um Valsmenn.

Valur er í baráttunni um fjórða sætið og þar með heimavallarrétt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. KR og Grindavík unnu bæði leiki sína í gær og Valsliðið datt því niður í sjötta sætið. Með sigri í kvöld komast Hlíðarendapiltar aftur upp í fjórða sætið.

Valsmenn geta einnig „sópað“ deildarmeisturunum með sigri í kvöld því Valsliðið vann leik liðanna á Hlíðarenda í febrúar með þrettán stigum.

Aðeins einu öðru liði hefur tekist að vinna Keflavík í vetur og það er Stjarnan. Þegar Stjörnumenn mættu Keflvíkingum aftur þá vann Keflavíkurliðið sannfærandi 19 stiga sigur.

Hvort Keflvíkingar nái að hefna aftur ósigurs í fyrri umferðinni í kvöld verður að koma í ljós en heimamenn hljóta að vera staðráðnir að gera betur en í fyrri leiknum þegar liðið skoraði aðeins 72 stig hjá Valsmönnum. Það er lægsta skor Keflavíkurliðsins á tímabilinu.

Keflvíkingar hafa unnið tíu leiki í röð í deildinni eða alla leiki síðan þeir mættu Valsmönnum síðast 12. febrúar. Vinni Keflvíkingar því í kvöld þá hafa þeir náð að vinna öll ellefu lið deildarinnar í einni röð.

Valsmenn hafa verið á góðu skriði eins og Keflvíkingar og hafa unnið sjö af síðustu átta leikjum sínum. Eina tapið síðan 6. mars síðastliðinn kom í Þorlákshöfn í síðasta útileik en Þórsarar unnu þá nauman tveggja stiga sigur.

Leikur Keflavíkur og Vals hefst klukkan 20.15 í kvöld en hann verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Strax á eftir verður síðan Dominos Körfuboltakvöld á dagskránni á sömu stöð.


Domino's Körfuboltakvöld er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Domino's-deildir karla og kvenna í körfubolta og er á dagskrá öll föstudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×