Erlent

Börn getin eftir Tsjernóbyl-slysið erfa ekki skaðann sem foreldrarnir urðu fyrir

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kona myndar rústir skemmtigarðs í Prypyat.
Kona myndar rústir skemmtigarðs í Prypyat. epa/Oleg Petrasyuk

Einstaklingar sem urðu fyrir geislamengun í Tsjernóbyl arfleiða börnin sín ekki að þeim skaða sem þeir kunna sjálfir að hafa orðið fyrir. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar á börnum foreldra sem unnu við hreinsun eftir kjarnorkuslysið.

Rannsakendurnir fengu til liðs við sig heilar fjölskyldur og raðgreindu erfðamengi móður, föður og barna. Börnin voru getin eftir slysið og fæddust á árunum 1987 til 2002.

Engar erfðabreytingar fundust hjá börnunum sem tengja mátti við þá geislamengun sem foreldrarnir urðu fyrir. 

Einn rannsakendanna, Dr. Stephen Chanock, segir um 50 til 100 nýjar erfðabreytingar finnast hjá nýjum kynslóðum en þær séu handahófskenndar og „kubbar þróunarinnar“, eins og hann kemst að orði.

Þannig verði smám saman breytingar á erfðamenginu, með fæðingu hvers einasta barns.

Hins vera hefðu rannsakendurnir varið níu mánuðum í að leita að breytingum sem þeir gætu tengt við geislamengandi umhverfi foreldranna fyrir getnað en fundið engar.

Sundlaug í Prypyat.epa/Sergey Dolzhenko

„Það voru margir hræddir við að eignast börn eftir kjarnorkusprengjurnar,“ segir Gerry Thomas, prófessor við Imperial College London, við BBC News. „Og fólk sem var hrætt við að eiga börn eftir slysið í Fukushima, af því að það óttaðist að börnin yrðu fyrir áhrifum vegna þeirrar geislamengunar sem foreldarnir urðu fyrir.

Það er átakanlegt. Og ef við getum sýnt fram á að hún hefur engin áhrif, þá getum við vonandi slegið á þær áhyggjur.“

Thomas kom ekki að umræddri rannsókn en stóð fyrir annarri þar sem rannsakendur skoðuðu skjaldkirtilskrabbamein af völdum Tsjernóbyl-slyssins en talið er að um 5.000 einstaklingar hafi fengið slík krabbamein.

Niðurstaða þeirrar rannsóknar var sú að skjaldkirtilskrabbamein af völdum geislamengunar væri ekki frábrugðið „hefðbundnu“ skjaldkirtilskrabbameini og því væri engin ástæða til að ætla annað en að ekki væri hægt að meðhöndla þau með sömu meðferð, með sama árangri.

BBC greindi frá.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×