Erlent

Um sautján börn á flótta hverfa daglega í Evrópu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Um er að ræða börn sem eru ein á ferð.
Um er að ræða börn sem eru ein á ferð. epa/Valdrin Xhemaj

Að minnsta kosti 180 þúsund börn á flótta hafa horfið eftir að hafa komið til Evrópulanda á borð við Grikkland, Ítalíu og Þýskaland. Alls var 18.292 flóttabarna, sem voru ekki í fylgd með fullorðnum, saknað árin 2018 til 2020. 

Þetta jafngildir sautján börnum á dag.

Rannsókn Guardian og blaðamannasamstarfsins Lost in Europe leiddi í ljós að árið 2020 hurfu 5.768 börn í þrettán Evrópuríkjum. Flest þeirra barna sem hafa horfið síðustu þrjú ár komu til Evrópu frá Marokkó, Algeríu, Eritríu, Gíneu og Afganistan.

Um 90 prósent þeirra voru drengir og einn af sex yngri en 15 ára.

Samkvæmt Guardian er fjöldi horfinna flóttabarna líklega hærri þar sem skráningu er afar ábótavant. Þannig fengust engar upplýsingar um horfin flóttabörn á eigin vegum frá Danmörku, Frakklandi og Bretlandi.

Federica Toscano, yfirmaður hjá Missing Children Europe, segir gögnin benda til umfangs þess vanda sem blasir við í Evrópu og fjöldinn endurspegli barnaverndarkerfi sem séu ekki að virka.

Rannsóknin leiddi í ljós að í mars 2019 hurfu að minnsta kosti 60 víetnömsk börn úr skýlum í Hollandi en þarlend yfirvöld grunar að þau hafi verið seld mansali til Bretlands og látin vinna á naglasnyrtistofum og við kannabisframleiðslu.

Næstum öll ríkin reyndust hafa verklag fyrir það þegar börn á flótta hyrfu en verulega vantaði upp á að það virkaði. Vandamálin fólust meðal annars í því að tilkynningum var ekki fylgt eftir og takmörkuð samvinna á milli lögreglu og innflytjendayfirvalda og barnaverndarnefnda.

„Afar lítið er skráð í skýrslu um flóttabarn sem er saknað,“ segir Toscano. „Og of oft er gert ráð fyrir að barnið sé öruggt í öðru ríki, þrátt fyrir að samvinna þvert á landamærin sé nánast engin í þessum málum.“

Umfjöllun Guardian.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×