Innlent

Segir fólk eiga það til að vera kæru­laust við hraunið

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Fólk hefur hætt sér ansi nálægt hrauninu.
Fólk hefur hætt sér ansi nálægt hrauninu. Vísir/Vilhelm

Opið verður fyrir umferð að gosstöðvunum í Fagradalsfjalli til klukkan níu í kvöld, líkt og síðustu daga. Yfirlögregluþjónn segir útlit fyrir nokkuð gott veður en ítrekar að staðan á svæðinu sé háð sífelldu endurmati, vegna hættu á gasmengun. Fólki er þá ráðlagt að vera ekki of nálægt hrauninu.

Bjarney Annelsdóttir, yfirlögregluþjónn á Suðurnesjum, segir að ákvörðunin um að loka svæðinu velti á veðri og vindum, sem hafi áhrif á styrk gasmengunar á svæðinu.

„Það er gott veður en eins og hefur komið fram höfum við áhyggjur af gasmengun. Það er opið, við höfum ekki tekið ákvörðun um að loka en það getur breyst með stuttum fyrirvara, ef vindáttir breytast,“ segir Bjarney

Hún segir að fólk sem gerir sér ferð að svæðinu eigi það til að vera nokkuð kærulaust, og fara of nálægt nýlegu hrauni.

„Það er þarna kriki á milli sprungnanna sem fólk fer of nálægt og er í storknuðu hraunflæðinu. Það getur á stuttum tíma, 40 til 60 mínútum, farið yfir svæðið.“

Og þá er fólk bara fast?

„Já, það getur lent í því. Við erum með ljósmyndir sem við höfum fengið þar sem fjöldi fólks er á milli gossprungna, bara 30 manns. Stuttu seinna fáum við aðra mynd og þá er búið að flæða yfir á þeim stað sem fólk var,“ segir Bjarney og beinir því til fólks sem hyggur á ferðir að gosstöðvunum að fylgjast vel með upplýsingum frá lögreglu og Landlækni um gasmengun á svæðinu.

Hún segir þá að talsvert hafi dregið úr umferðarþunga um svæðið.

„Ætli það sé ekki bara eðlilegri fjöldi sem er að heimsækja þetta núna. Þetta var spennandi í upphafi en á öllu sýnist okkur þetta ekkert vera að hætta hvort eð er, þannig að fólk kemur þegar það hefur nægan tíma.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×