Innlent

Settu upp beint streymi af Keili ef það skyldi gjósa

Vésteinn Örn Pétursson og skrifa
Úr streymi Víkurfrétta.
Úr streymi Víkurfrétta. Víkurfréttir/Skjáskot

Staðarmiðillinn Víkurfréttir í Reykjanesbæ sendir nú út beint streymi af fjallinu Keili, eftir að fregnir bárust af því að líkurnar á eldgosi á Reykjanesskaga gætu verið að aukast. Streymið er tekið upp út um glugga á skrifstofuhúsnæði á fjórðu hæð, sem ritstjórinn segir hafa vaggað nánast stanslaust síðustu daga.

Í samtali við Vísi segir Páll Hilmar Ketilsson, ritstjóri Víkurfrétta, að dagurinn í dag sé einfaldlega búinn að „vera bara á hreyfingu.“ Svo mikill sé óróinn og hræringarnar á svæðinu, sem magnast svo upp eftir því sem farið er upp fleiri hæðir í húsinu.

Bein útsending frá Keili og vettvangi jarðskjálfta

Bein útsending frá Keili og vettvangi jarðskjálfta

Posted by Víkurfréttir on Monday, 1 March 2021

„Við erum á fjórðu hæð í fimm hæða skrifstofuhúsi í miðjum Reykjanesbæ og dagurinn í dag er bara búinn að vera á hreyfingu. Það var það sama fyrir helgina, á miðvikudaginn. Maður var bara með netta sjóriðu eftir daginn, hafandi verið hér megnið af deginum. Þetta er hátt hús og hreyfist talsvert,“ segir Páll.

Á miðvikudag hófst skjálftahrina á Reykjanesskaga og stærsti skjálftinn var 5,7 að stærð og fannst hann víða á Suðvesturhorninu. Er hann sá stærsti í hrinunni til þessa.

Páll segir að húsið hreyfist í talsvert langan tíma eftir að stærri skjálftar hafi riðið yfir á svæðinu. Starfsmenn séu ekki hræddir, en mörgum þykir þó nóg komið.

„Við erum ekki beint hræddir, erum allavega hér við vinnu. En maður myndi alveg vilja losna við þetta. Þetta er svolítið mikið finnst okkur, og búið að vera óvenju lengi í dag,“ segir Páll.

Varðandi streymið segir Páll að þegar fréttir hafi borist af því að líkurnar á eldgosi kynnu að vera að aukast, þá hafi verið ákveðið að skella myndavélinni út í glugga og beina beint að Keili.

„Við erum með útsýni ansi víða. Þetta er glerhýsi, háhýsi hérna í Reykjanesbæ. Við horfum bara á Keili alla daga,“ segir Páll, sem virðist hvergi banginn þrátt fyrir að vera orðinn eilítið þreyttur á skjálftahrinunni sem nú er á sjötta degi.

Uppfært: Streyminu er nú lokið.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×