Innlent

Telja fimm­tán hópa í skipu­lagðri glæpa­starf­semi hér á landi

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Lögreglan telur að alls séu fimmtán hópar hér á landi sem tengjast skipulagðri glæpastarfsemi.
Lögreglan telur að alls séu fimmtán hópar hér á landi sem tengjast skipulagðri glæpastarfsemi. Vísir/Vilhelm

Lögregluyfirvöld telja að alls séu fimmtán hópar sem tengjast skipulagðri glæpastarfsemi sem séu starfandi hér á landi. Glæpastarfsemin einskorðist þó ekki við Ísland heldur teygi hún anga sína víðar.

Þetta kemur fram í pistli Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, í Morgunblaðinu í dag. Hún segir að margir þeirra stundi löglegan rekstur af ýmsu tagi samhliða lögbrotunum. Hin löglega starfsemi sé nýtt til að þvætta fjármuni eða til að stuðla að frekari glæpum.

Hóparnir séu af ýmsum þjóðernum og að glæpastarfsemin einskorðist ekki við Ísland í flestum tilfellum.

Áslaug Arna segir að á allra síðustu árum hafi verulegum fjármunum verið varið til lögreglunnar til að bregðast við þessari ógn.

Þetta sé ástand sem brýnt sé að bregðast við. Síðastliðið haust fól dómsmálaráðherra ríkislögreglustjóra að efla samstarf og samhæfingu innan lögreglunnar í því skyni að vinna markvisst gegn skipulagðri brotastarfsemi.

Áslaug segir nauðsynlegt að samnýta mannafla og búnað lögregluembættanna og auka skilvirkni á þessu sviði. Íslenska lögreglan þurfi að hafa bæði getu og þekkingu til að takast á við jafn umfangsmikil, flókin og þaulskipulögð mál og um sé að ræða.

Sérstakur stýrihópur hefur unnið að samhæfingu aðgerða, auknu samstarfi á milli lögregluembætta og alþjóðlegri samvinnu á undanförnum mánuðum. Í hópnum sitja fulltrúar stærstu lögregluembættanna.

Hávær umræða hefur skapast í samfélaginu vegna manndrápsins við Rauðagerði 13. febrúar síðastliðinn um skipulagða brotastarfsemi og alþjóðlega glæpahópa. Rannsókn lögreglu hefur enn ekki leitt í ljós að um slíkt sé að ræða þó það sé á meðal þess sem til skoðunar er.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×